Borgarstjóri Rochester í New York-ríki hefur heitið umbótum innan lögreglunnar vegna dauða Daniels Prudes sem lést eftir að hafa verið handtekinn.
Prude lést á sjúkrahúsi í mars, viku eftir að lögregluþjónar settu svokallaða hrákahettu yfir höfuð hans og þvinguðu höfuð hans að götunni. Hettan er hönnuð til að koma í veg fyrir að lögreglan fái yfir sig hráka þeirra sem eru í haldi.
Borgarstjórinn Lovely Warren tilkynnti á blaðamannafundi að skipulagi innan lögreglunnar yrði breytt á „næstu vikum, mánuðum og árum“, að sögn BBC.
NEW: Rochester, New York, is moving crisis intervention out of its police dept. amid outrage and protests over the death of Daniel Prude, the Black man with mental health issues who died after officers placed a spit hood over his head and restrained him. https://t.co/LbIVHrnIwQ
— NBC News (@NBCNews) September 6, 2020
Sjö lögregluþjónum hefur verið vikið frá störfum vegna atviksins. Á laugardaginn tilkynnti ríkissaksóknari New York, Letitia James, að rannsókn myndi fara fram á dauða Prudes, sem var 41 árs.
Hann átti við andleg veikindi að stríða og minntist Warren á það á blaðamannafundinum. „Þarna var manneskja sem þurfti á hjálp að halda og samúð. Á þessu augnabliki gafst okkur tækifæri til að vernda hann,“ sagði hún. „Við þurfum að átta okkur á því að á þessu augnabliki gerðum við það ekki.“
Um eitt þúsund mótmælendur gengu um götur Rochester í gærkvöldi þar sem lögregluofbeldi var mótmælt en enginn var handtekinn.