Hringdu á lögreglu vegna leikfangabyssu

Isaiah Elliott safnar Nerf-leikfangabyssum.
Isaiah Elliott safnar Nerf-leikfangabyssum. Ljósmynd/Dani Elliott

Dani Elliott var í vinnunni 27. ágúst í Colorado-ríki í Bandaríkjunum þegar aðstoðarskólastjóri skólar sonar hennar hringdi. Aðstoðarskólastjórinn sagði að lögreglumenn væru á leiðinni heim til hennar vegna þess að 12 ára sonur hennar hefði leikið sér með leikfangabyssu í fjarkennslu. 

Elliott segist hafa orðið skelkuð, sérstaklega af því að sonur hennar er svartur. „Mér hafði aldrei dottið í hug að þú mættir ekki leika þér með Nerf-byssu á eigin heimili af því að einhver gæti litið á það sem ógn og sigað lögreglunni á þig,“ segir Elliott í samtali við WashingtonPost. 

Leikfangabyssan sem Isaiah var með í fjarkennslunni.
Leikfangabyssan sem Isaiah var með í fjarkennslunni. Ljósmynd/Dani Elliott

Kominn á sakaskrá

Sonur Elliott, Isaiah, fékk fimm daga brottvísun úr skólanum og er nú á sakaskrá hjá lögreglunni í El Paso-sýslu. Þá var atvikið skráð á agaskýrslu Isaiah í skólanum. 

Elliott gagnrýnir skólann harðlega fyrir að hafa hringt á lögregluna, sérstaklega í ljósi mótmæla gegn lögregluofbeldi og kynþáttafordómum sem hafa staðið yfir í Bandaríkjunum síðan í maí. 

„Í ljósi ástandsins í samfélaginu í dag, sérstaklega fyrir unga svarta Bandaríkjamenn, að þú skulir hringja í lögregluna og segja að hann hafi byssu, þú stefnir lífi hans í hættu,“ segir Elliott. 

Isaiah Elliott með foreldrum sínum.
Isaiah Elliott með foreldrum sínum. Ljósmynd/Dani Elliott

Skelfingu lostinn

Atvikið átti sér stað 27. ágúst, þremur dögum eftir að kennsla hófst að nýju í skóla Isaiah. Elliott frétti fyrst af atvikinu þegar myndmenntakennari sonar henni sendi henni tölvupóst og upplýsti hana um að sonur hennar, sem hefur verið greindur með ADHD, hafi verið utan við sig og leikið sér að byssu. Elliott fullvissaði kennarann um að byssan væri einungis leikfang og að hún myndi ræða við son sinn, en myndmenntakennarinn hafði þá þegar upplýst aðstoðarskólastjóra skólans um atvikið og hann hringt á lögregluna. 

Þegar lögregla mætti á heimili Elliott-fjölskyldunnar sögðu lögregluþjónar Isaiah, sem var að sögn móður hans skelfingu lostinn, að ef hann hefði komið með leikfangið í skólann hefði hann verið ákærður. 

Foreldrar Isaiah hafa sótt um skólavist í öðrum skóla. 

mbl.is