Lögreglustjóri Rochester í New York-ríki hefur sagt af sér í kjölfar mótmæla vegna dauða Daniels Prudes, svarts karlmanns sem lést í haldi lögreglu í mars.
Lovely Warren, borgarstjóri Rochester, tilkynnti á borgarráðsfundi í dag að lögreglustjóri og aðstoðarlögreglustjóri borgarinnar hefðu báðir tilkynnt afsögn sína.
Prude lést á sjúkrahúsi í mars, viku eftir að lögregluþjónar settu svokallaða hrákahettu yfir höfuð hans og þvinguðu höfuð hans að götunni. Hettan er hönnuð til að koma í veg fyrir að lögreglan fái yfir sig hráka þeirra sem eru í haldi. Hann átti við andleg veikindi að stríða og var stöðvaður af lögreglu þar sem hann hljóp klæðlaus um í snjókomu.
Sjö lögregluþjónum hefur verið vikið frá störfum vegna málsins. Ríkissaksóknari New York, Letitia James, tilkynnti á laugardag að rannsókn myndi fara fram á dauða Prudes, sem var 41 árs.
La'Ron Singletary, fráfarandi lögreglustjóri borgarinnar, segir umfjöllun um þær aðgerðir sem hann greip til í kjölfar dauða Prudes ranga og ekki byggða á staðreyndum.