Ætla má að útflutningsverðmæti makríls sem veiðst hefur í ár verði hátt í 25 milljarðar króna. Síðustu vikur hefur fengist góður afli í Síldarsmugunni austur af landinu, en langt hefur verið að sigla.
Um miðja vikuna höfðu 2/3 hlutar makrílafla sumarsins fengist í Síldarsmugunni, að því er fram kemur í umfjöllun um makrílveiðarnar í Morgunblaðinu í dag.
Fram undan eru veiðar á norsk-íslenskri síld og eru fyrstu skipin byrjuð á síld. Fréttir af afla Færeyinga við Kolbeinsey lofa góðu, en auk þess var síld víða við landið í sumar. Á heimasíðu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er haft eftir Hjörvari Hjálmarssyni, skipstjóra á Berki, að mikið sé af síld austur af landinu. Hann veltir því fyrir sér hvort hún muni hafa vetursetu á Rauða torginu eins og í gamla daga.