Tæknivætt frá upphafi til enda

„Í fyrsta skipti er hægt að láta laxinn fara í …
„Í fyrsta skipti er hægt að láta laxinn fara í gegnum vinnsluna með nærri því alsjálfvirkum hætti,“ segir Valdimar um lausnirnar sem smíðaðar voru fyrir Inka í Noregi.

Þegar kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn brast á kom sér vel að Mar­el hef­ur byggt upp víðfeðmt þjón­ustu­net og hafði sér­fræðinga til taks í öll­um heims­álf­um. „Fyr­ir vikið átt­um við auðveld­ara með að hjálpa viðskipta­vin­um okk­ar að halda öllu gang­andi og tryggja þannig fram­boð ör­uggra gæðamat­væla til neyt­enda,“ seg­ir Valdi­mar Ómars­son, yf­ir­maður vöruþró­un­ar. „Okk­ar hlut­verk í þess­ari mik­il­vægu virðiskeðju er að tryggja að viðskipta­vin­ir okk­ar geti starfað á full­um af­köst­um og alþjóðlegt þjón­ustu­net okk­ar gerði það að verk­um að við gát­um sinnt viðhaldi og viðgerðum með eðli­leg­um hætti, þrátt fyr­ir að flug­sam­göng­ur á milli landa röskuðust og landa­mæri lokuðust.“

Allt ferlið sjálf­virkt

Starf­semi Mar­els vex jafnt og þétt og er fyr­ir­tækið með mörg áhuga­verð verk­efni í píp­un­um. Á und­an­förn­um mánuðum stend­ur m.a. upp úr af­hend­ing heild­ar­kerf­is fyr­ir stóra laxa­vinnslu í Nor­egi. „Við höf­um átt í mjög góðu sam­starfi við fisk­vinnslu­fyr­ir­tækið Inka í þessu verk­efni og spenn­andi vöruþróun hef­ur átt sér stað við hönn­un og smíði vinnslu­kerf­is­ins,“ seg­ir Valdi­mar. „Í fyrsta skipti er hægt að láta lax­inn fara í gegn­um vinnsl­una með nærri því alsjálf­virk­um hætti. Eft­ir haus­un og flök­un fara flök­in í sjálf­virkt gæðaeft­ir­lit­s­kerfi sem met­ur hvert flak og bita og kem­ur manns­hönd­in ekki nærri nema að sjálf­virka gæðamatið greini að laga þurfi minni­hátt­ar galla. Þá er flakið sent áfram annaðhvort á snyrti­borð þar sem flakið er snyrt eða sent í skurðar­vél þar sem það er hlutað í neyslu­ein­ing­ar og skemmd­in skor­in frá.“

Mar­el skaff­ar allt vinnslu­kerfið og er ferlið tækni­vætt frá upp­hafi til enda: frá því slægður lax­inn berst í hús þar til ró­bót­ar raða bit­um í neyslupakkn­ing­ar. „Við af­hend­um lausn­ir sem hafa margsannað sig víðsveg­ar um heim­inn í bland við ný vöruþró­un­ar­verk­efni. Við þróum all­ar okk­ar lausn­ir í nánu sam­stafi við okk­ar viðskipta­vini og er þetta verk­efni gott dæmi um það,“ út­skýr­ir Valdi­mar. „Með sjálf­virku gæðaeft­ir­lit­s­kerfi þar sem all­ar loka­af­urðir eru skoðaðar og metn­ar get­ur Inka full­vissað sína kaup­end­ur um að þeir séu alltaf að fá gæðavöru.“

Sjálf­virkni til að tryggja rekstr­arör­yggi

Nýja laxa­vinnsl­an ætti að geta skapað betri for­send­ur fyr­ir full­vinnslu á eld­islaxi í Nor­egi en vegna hás launa­kostnaðar þar í landi er al­gengt í dag að eft­ir slátrun sé norsk­ur eld­islax send­ur til frek­ari verk­un­ar í lönd­um sunn­ar og aust­ar í álf­unni. Með því að sjálf­virkni­væða vinnsl­una eins og Inka hef­ur gert þarf færri hend­ur til að vinna lax­inn á sama tíma og há­marks­gæði eru tryggð. „Í stað slít­andi og ein­hæfra starfa við t.d. snyrt­ingu og pökk­un verða til störf fyr­ir sér­fræðinga sem vakta búnaðinn og tryggja að all­ar vél­ar virki sem skyldi,“ bæt­ir Valdi­mar við.

Kór­óna­veirufar­ald­ur­inn hef­ur verið mik­il áskor­un fyr­ir mat­vælaiðnaðinn á heimsvísu og seg­ir Valdi­mar að stöðugt fram­boð ör­uggra mat­væla hafi aldrei verið jafn mik­il­vægt og nú. Lík­legt er að far­ald­ur­inn muni flýta enn frek­ar tækni­fram­förum í mat­væla­geir­an­um því far­ald­ur­inn hef­ur sýnt að ákveðið rekstr­arör­yggi fel­ist í sjálf­virkni­vædd­um vinnslu­ferl­um. Valdi­mar seg­ir að í þeim geir­um sem eru hvað tækni­vædd­ast­ir, s.s. sjáv­ar­út­vegi og kjúk­linga­rækt, hafi vanda­mál vegna kór­ónu­veirunn­ar verið fátíð en í slátrun og vinnslu stór­gripa – þar sem tæknistigið er lægra – hafi orðið rösk­un á fram­leiðslu vegna hópsmita. „Fram­leiðend­ur standa því frammi fyr­ir því í dag að meta þarf ávinn­ing­inn af sjálf­virkni­væðingu út frá fleiri for­send­um en áður.“

Meiri sjálf­bærni og ný hugs­un í viðhaldi

Þær tækni­fram­far­ir sem orðið hafa í sjáv­ar­út­veg­in­um á und­an­förn­um þrem­ur ára­tug­um eru æv­in­týri lík­ast­ar. Jafnt og þétt hef­ur tæknifyr­ir­tækj­um tek­ist að þróa nýj­ar og hug­vit­sam­leg­ar leiðir til að há­marka gæði, af­köst og nýt­ingu svo að sum­um gæti þótt vand­séð að hægt væri að gera mikið bet­ur. Valdi­mar seg­ir að mark­mið Mar­els hafi í raun ekk­ert breyst í þau 40 ár sem fyr­ir­tækið hef­ur starfað. Frá upp­hafi hafi sýn Mar­els verið að umbreyta mat­væla­vinnslu á heimsvísu með ný­sköp­un og gagna­grein­ingu að vopni til þess að auka nýt­ingu og gæði.

Enn er ærið verk­efni fram und­an og ýms­ar áskor­an­ir bíða úr­lausn­ar og seg­ir Valdi­mar Mar­el t.d. núna leggja mikla áherslu á leiðir til að gera vinnsl­urn­ar sjálf­bær­ari með því að lág­marka raf­magns- og vatns­notk­un við vinnslu á fiski og há­marka nýt­ing­una hvort sem er í flök­un, roðflett­ingu, vatns­skurði eða vigt­ar­ná­kvæmni í kassa. „Þá munu sjálf­virku snyrti- og skurðar­tæk­in halda áfram að taka fram­förum svo að æ hærra hlut­fall flaka geti farið í gegn­um vinnslu­lín­ur án þess að manns­hönd­in komi þar nærri.“

Valdi­mar seg­ir þess líka að vænta að vinnslu­tæki muni tala meira sam­an og safna gögn­um sem hægt er að greina í þaula. „Þá á FleX­icut-vatns­skurðar­vél­in t.d. í sam­skipt­um við forsnyrtilín­una fyr­ir fram­an og bend­ir á flök­un­ar­galla eða bein sem ekki hafa verið snyrt, og eru gögn­in notuð til að „þjálfa“ forsnyrti-starfs­fólkið og bæta vinnsl­una þannig enn frek­ar.“

Öflun og grein­ing gagna mun líka hjálpa mikið við viðhald. „Í stað þess að nálg­ast viðhald út frá for­varn­ar­sjón­ar­miði (e. preventati­ve main­ten­ance) verður þá hægt að nota svo­kallað for­spár­viðhald (e. predicti­ve main­ten­ance) þar sem við not­um hluta­netið (e. IoT, in­ter­net of things) til að meta ástand íhluta og skipta þeim út á hár­rétt­um tíma, og get­um með því móti lág­markað lík­urn­ar á óvænt­um trufl­un­um.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: