Var mjög í mun að vinna ekki í sjávarútvegi

Fanney Björk Friðriksdóttir, gæðastjóri Brims á Vopnafirði, segir að henni …
Fanney Björk Friðriksdóttir, gæðastjóri Brims á Vopnafirði, segir að henni hafi verið boðið starf á Vopnafirði eftir að hafa aðeins lokið einu ári í sjávarútvegfræðum við Háskólann á Akureyri. Ljósmynd/Aðsend

Óhætt er að segja að það hafi verið gæfu­spor fyr­ir Fann­eyju Björk Friðriks­dótt­ur að ákveða að starfa í sjáv­ar­út­vegi. Í dag er hún 27 ára göm­ul og starfar sem gæðastjóri hjá fisk­vinnslu Brims á Vopnafirði. „Hér óx ég úr grasi og ekki fyrr en ég hóf nám við Mennta­skól­ann á Ak­ur­eyri að ég flutti frá bæn­um. Á sumr­in sneri ég aft­ur heim á Vopna­fjörð og vann í fisk­vinnsl­unni sem þá var í eigu HB Granda. Ég fékk þar verk­efni af ýmsu tagi, allt frá því að tína úr skemmd­an fisk og skola vinnsl­una yfir í eft­ir­lit með vél­um og búnaði,“ seg­ir Fann­ey. „Það var í gegn­um þessa reynslu að áhugi kviknaði hjá mér að leggja fyr­ir mig nám í sjáv­ar­út­vegs­fræði hjá Há­skól­an­um á Ak­ur­eyri.“

Fann­ey ját­ar að þrátt fyr­ir að vera kom­in af sjó­mönn­um í a.m.k. fjóra ættliði þá hafi henni verið mjög í mun á unglings­ár­un­um að starfa við eitt­hvað allt annað en sjáv­ar­út­veg. „Mér hugnaðist frek­ar að fara kannski að vinna í fata­búð eða ger­ast gullsmiður – og það er svo sem ekki úti­lokað að ég leggi gull­smíðina ein­hvern tíma fyr­ir mig. En viðhorf mitt til grein­ar­inn­ar tók að breyt­ast eft­ir því sem ég kynnt­ist sjáv­ar­út­veg­in­um bet­ur og sá hvað þetta er tækni­vædd­ur, krefj­andi og hraður geiri þar sem á sér stað mik­il ný­sköp­un.“

Gæðastjóra ekk­ert óviðkom­andi

Þá skemm­ir ekki fyr­ir hvað at­vinnu­tæki­fær­in eru góð og var Fann­eyju boðið starf á Vopnafirði strax að loknu fyrsta ár­inu við HA. „Þau vildu taka við mér strax og varð því úr að ég kláraði seinni tvö ár sjáv­ar­út­vegs­fræðináms­ins í fjar­námi meðfram vinnu.“

Starf gæðastjór­ans krefst þess að Fann­ey þekki rekst­ur­inn út og inn, fylg­ist með stóru og smáu og sé alltaf til taks þegar á þarf að halda. Vinnu­tím­inn get­ur verið breyti­leg­ur eft­ir árs­tím­um og t.d. unnið all­an sól­ar­hring­inn í fisk­vinnsl­unni á mak­ríl­vertíð. „Það get­ur verið erfitt að lýsa starfi gæðastjóra og fátt sem er manni óviðkom­andi. Það kem­ur fólki oft á óvart hvað það fylg­ir mik­il papp­írs­vinna þessu starfi en kaup­end­ur gera iðulega mjög rík­ar kröf­ur um að bæði var­an og rekst­ur­inn full­nægi ákveðnum stöðlum. Kem­ur það m.a. í hlut gæðastjór­ans að svara reglu­lega löng­um spurn­ingalist­um og afla ým­iss kon­ar fylgi­gagna sem kaup­and­inn vill sjá.“

Smit­varnaaðgerðir vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins reyndu á Brim rétt eins og önn­ur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki. Þegar far­ald­ur­inn brast á var Fann­ey í fæðing­ar­or­lofi en var þó vinnu­veit­anda sín­um inn­an hand­ar eft­ir bestu getu. „Við erum hepp­in hér á Vopnafirði því við höf­um sloppið við kór­ónu­veiruna hingað til. Viðbragðsteymi Brims í Reykja­vík mótaði nýj­ar regl­ur sem við fór­um eft­ir á meðan smit­hætt­an var hvað mest. Hér á Vopnafirði var nóg að bæta aðskilnað á milli vinnslu­stöðvanna.“

„Markaður­inn stopp­ar aldrei“

„Ekki reynd­ist þörf á að gera meiri hátt­ar breyt­ing­ar á vakta­skipt­ing­um og hér hélst full vinnsla all­an tím­ann,“ seg­ir hún. „Vita­skuld hafa alltaf verið gerðar mjög rík­ar kröf­ur um handþvott og þrif í fisk­vinnsl­un­um en til að lág­marka smit­hættu enn frek­ar var aukið við þrif á aðstöðu starfs­manna og starfs­fólk beðið um að spritta á sér hend­urn­ar oft á dag. Við höf­um haft það hug­fast að all­ir þurfa að leggja sitt af mörk­um

Smám sam­an er lífið á Vopnafirði að fær­ast aft­ur nær eðli­legu horfi. Markaður­inn fyr­ir sjáv­ar­af­urðir er þó ennþá erfiður og eim­ir enn eft­ir af þeim miklu sveifl­um sem ein­kenndu fyrri helm­ing árs­ins. Fann­ey seg­ir ljóst að markaðsfólks fyr­ir­tæk­is­ins bíði ær­inn starfi enda markaðsaðstæður ekki þær sömu og þær voru fyr­ir far­ald­ur. „Rask­an­ir hér og þar hafa valdið snjó­bolta­áhrif­um og við get­um bú­ist við því að eftir­kasta far­ald­urs­ins muni gæta í lang­an tíma á eft­ir,“ seg­ir hún en er þess jafn­framt full­viss að bæði Brim og ís­lensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur eins og hann legg­ur sig muni leysa þessa áskor­un vel af hendi. „Við þurf­um bara að hafa það hug­fast, nú sem endra­nær, að markaður­inn stopp­ar aldrei og við þurf­um að hafa putt­ann á púls­in­um og vera í sí­felldri þróun því ann­ars hætt­um við á að drag­ast aft­ur úr.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: