Sjö einstaklingar sem sitja í haldi namibískra yfirvalda í tengslum við meinta spillingu og peningaþvætti í tengslum við starfsemi Samherja í landinu verða áfram í varðhaldi í allavega þrjá mánuði til viðbótar.
Þeir hafa flestir setið í varðhaldi frá því snemma í desember á síðasta ári. Þetta er niðurstaða dómstóls í Namibíu, en það er namibíski fjölmiðillinn Informanté sem greinir frá.
Dómarinn í málinu veitti heimild fyrir framlengingu varðhaldsins, að ósk saksóknara, vegna uppbyggingar þess og umfangs. Þá var vísað til þess að Covid-19 faraldurinn hefði tafið rannsóknina. Samkvæmt úrskurðinum nú verða sjömenningarnir í varðhaldi til 14. desember.
Höfðu verjendur sjömenninganna mótmælt kröfu saksóknarans, en fyrr á þessu ári neitaði dómstóllinn því að höfuðpaurar málsins fengju að ganga lausir gegn tryggingu þar sem sönnunargögn málsins bentu til sektar þeirra.
Um er að ræða Bernard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra landsins, Tamson Hatuikulipi, tengdason hans, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður ríkisútgerðarfélagsins Fishcor, sjóðstjórinn Ricardo Gustavo, Pius Mwatelulo og Mike Nghipunya.