Samkeppni er mjög virk á öllum mörkuðum sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki starfa á, hér á landi sem erlendis.
Þetta er niðurstaða í tölfræðilegri úttekt sem verðbréfafyrirtækið Arev vann fyrir Brim, en þar var beitt sömu aðferðum og Samkeppniseftirlitið (SKE) notar til þess að mæla virkni og samþjöppun á mörkuðum.
Hins vegar er aðra sögu að segja um ýmsa markaði aðra, en til samanburðar var mæld samþjöppun á matvörumarkaði og í bankaþjónustu. Skemmst er frá því að segja að þar er samþjöppun langt yfir viðmiðunarmörkum, bæði SKE og Evrópusambandsins, sem þó er eilítið umburðarlyndara.
Í athugun Arev, sem unnin var í framhaldi af ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna viðskipta með eignarhluti í Brimi, og unnin var úr opinberum gögnum, kom einnig á daginn að samkeppni er mikil með botnfisk almennt, en einnig þegar litið er til einstakra fisktegunda, þó þar á milli sé nokkur munur. Hið sama á við hvað varðar markað með aflamark eða leigukvóta. Þar á sér stað veruleg tilfærsla milli útgerða og skipa á ári hverju.