Samdráttur í losun frá vegasamgöngum

Bílar á ferð um Vesturlandsveg.
Bílar á ferð um Vesturlandsveg. mbl.is/Styrmir Kári

Losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum hérlendis dróst saman um 2% á milli áranna 2018 og 2019. Þetta er í fyrsta skipti frá árinu 2014 sem má sjá samdrátt í þessum flokki.

Þetta kemur fram í bráðabirgðaniðurstöðum Umhverfisstofnunar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands fyrir árið 2019.

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna urðunar dróst saman um 10% milli áranna 2018 og 2019.

Losun frá jarðvarmavirkjunum jókst aftur á móti um 5% á tímabilinu. Losun frá iðnaðarferlum og efnanotkun jókst umtalsvert. Sú losun er að stærstum hluta annars eðlis, þ.e.vegna kælimiðla sem hafa sjö ára líftíma og því er losun þeirra í beinu samhengi við innflutning þeirra sjö árum áður.

Fram til þessa hafa losunartölur verið gefnar út tveimur árum eftir að losunin á sér stað, þegar þeim er skilað inn til rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðunum dróst losun á beinni ábyrgð Íslands saman um 0,3% á milli áranna 2018 og 2019.

Höfum náð 6,7 prósentum af 29

„Með Parísarsáttmálanum höfum við skuldbundið okkur til að ná 29% samdrætti í losun á beinni ábyrgð Íslands árið 2030, miðað við losun ársins 2005. Bráðabirgðaniðurstöðurnar benda til þess að við höfum nú náð 6,7% af þeim 29%. Stefnt er að a.m.k. 35% samdrætti árið 2030 samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar,“ segir í tilkynningu Umhverfisstofnunar.

Bráðabirgðatölurnar ná hvorki yfir losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS) né losun og kolefnisbindingu sem tengist landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt (LULUCF).

mbl.is