Heimildarmyndin Is there a solution to internet pollution, sem þrír íslenskir menntaskólanemar stóðu að lenti í fyrsta sæti í alþjóðlegri keppni ungra umhverfisfréttamanna (YRE). Myndin hafði áður sigrað í innanlandskeppni Landverndar en þar hét hún Mengun með miðlum.
Hálfdán Helgi Matthíasson, Axel Bjarkar Sigurjónsson og Sölvi Bjartur Ingólfsson, nemar í Tækniskólanum, stóðu að gerð myndarinnar. Hún sigraði fyrst innanlandskeppni sem Landvernd blés til.
Annar Íslendingur gerði það gott í alþjóðlegu keppninni en það er Ásdís Rós Þórisdóttir sem stundar nám við Fjölbrautaskólann í Ármúla. Hún hlaut heiðursverðlaun fyrir ljósmynd sína „Congratulations humanity“.
Strákarnir lentu í fyrsta sæti í flokki heimildarmynda. Þeir hafa nú einnig verið tilnefndir til fjölmiðlaverðlauna umhverfisráðuneytisins fyrir Mengun með miðlum. Hana má sjá hér að neðan en útgáfan sem strákarnir sendu út í keppnina var á ensku og talsvert styttri.