Pólland er núna stærsti markaðurinn fyrir íslenskan eldislax, samkvæmt tölum íslenska sprotafyrirtækisins Sea Data Center.
Útflutningur til Póllands jókst um yfir 1.500% á síðasta ári og var markaðurinn þá sá þriðji stærsti fyrir Ísland. Á þessu ári er hann orðinn sá stærsti, að því er kemur fram á vef Undercurrent News.
Á síðasta ári voru 3.200 tonn af laxi flutt frá Íslandi til Póllands en í lok júlí í ár höfðu þegar verið seld yfir 2.900 tonn.
Fram kemur að árið 2015 hafi Bandaríkin keypt 72% af öllum þeim eldislaxi sem Ísland flutti út. Núna er talan komin niður í 8%.
Í heildina flutti Ísland út tæp 15 þúsund tonn á fyrri hluta þessa árs, sem er 16% aukning frá árinu á undan.