Matvælaframleiðandinn Mars Foods, sem framleiðir hrísgrjónin Uncle Ben's, hefur tilkynnt að nafni hrísgrjónanna verði breytt í Ben's Original. Þá verður myndin sem prýðir pakkningarnar, af gömlum, brosmildum, svörtum manni fjarlægð.
Breytingin kemur í kjölfar samþykktar fyrirtækisins um að endurskoða vörumerkjastefnu sína í ljósi mótmæla gegn kynþáttafordómum og lögregluofbeldi í Bandaríkjunum. Markaðssetning hrísgrjónanna, sem komu á markað á fimmta áratugnum, hefur verið gagnrýnd fyrir að byggja á rasískum staðalímyndum.
Titlar á borð við uncle og aunt (frændi og frænka) voru algengir í suðurríkjum Bandaríkjanna í stað virðulegri titla á borð við Mister og Missus (herra og frú). Nafn hrísgrjónanna er sagt koma frá bónda í Texas-ríki sem var þekktur fyrir gæðahrísgrjón, en maðurinn á myndinni er Frank Brown, sem var yfirþjónn á veitingastað í Chicago árið 1947.
„Við skiljum ranglætið sem var tengt við fyrra vörumerki,“ segir í yfirlýsingu frá Mars, en gera má ráð fyrir að nýju umbúðirnar fari í verslanir í byrjun næsta ári. Ekki fylgir sögunni hvort breytingin nær til annarra landa, en hrísgrjónin eru til að mynda seld hér á landi.
Þá tilkynnti fyrirtækið að það myndi einnig styrkja mannréttindasamtökin National Urban League um tvær milljónir dala (270 m.kr.) sem nýta á til námsstyrkja fyrir svarta kokkanema. Eins myndi fyrirtækið fjárfesta 2,5 milljónum dala í Greenville í Mississippi þar sem hrísgrjónin eru framleidd.