Þrjú skip gripin við ólöglegar veiðar

Gæslan að störfum. Mynd úr safni.
Gæslan að störfum. Mynd úr safni. Ljósmynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Þrjú íslensk fiskiskip voru staðin að meintum ólöglegum veiðum innan lokaðra svæða í íslensku efnahagslögsögunni í síðustu viku.

Á þriðjudagskvöld urðu varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar varir við að fiskiskip væri á togferð innan lokaðs hólfs þar sem ekki er heimilt að veiða með fiskibotnvörpu.

Skipstjórinn sagðist ekki hafa vitað af lokuninni og var varðskipið Týr sent á staðinn. Eftirlitsmenn varðskipsins fóru um borð þegar skipið kom til hafnar og hófu rannsókn.

Verða kærð til lögreglu

Varðstjórar í stjórnstöð urðu einnig áskynja um meintar ólöglegar veiðar tveggja fiskiskipa til viðbótar. Landhelgisgæslan hafði samband við bæði skipin sem voru einnig innan lokaðra svæða.

Öll málin verða kærð til lögreglu, að því er fram kemur í tilkynningu frá Gæslunni.

mbl.is