Athyglisverð sjónarmið var að finna í norska blaðinu Fiskaren/Fiskeribladet í byrjun mánaðarins um málstað Noregs í viðræðum um stjórnun makrílveiða á NA-Atlantshafi. Meðal annars var fjallað um þá staðreynd að stór hluti makrílsins sem norsk skip hafa komið með að landi síðustu ár hefur fengist utan norskrar lögsögu.
Þeirri spurningu er velt upp í blaðinu hvort Norðmenn taki áhættu með réttindi sín til makrílveiða með því að veiða ekki fiskinn meðan hann er í norskri lögsögu. – Já, er svar Einars Meløysund, sem gerir út nótabátinn Einar Erlend sem veiðir makríl við Noregsstrendur.
Ekkert heildarsamkomulag er í gildi um makrílveiðar í NA-Atlantshafi, frekar en aðrar uppsjávartegundir. Hins vegar gerðu Noregur, Færeyjar og Evrópusambandið samning sín á milli fyrir nokkrum árum um veiðar á makríl, þar á meðal um gagnkvæman aðgang að lögsögum.
Þó svo að mikið hafi verið af makríl í norskri lögsögu síðustu ár hafa Norðmenn í talsverðum mæli veitt kvóta sinn í lögsögu Evrópusambandins, m.a. við Hjaltlandseyjar, og fengið þar stóran og góðan fisk. Þegar líður á haustið aukast gæði makríls eftir sumarbeit á norðurslóðum og oft hefur lítil áta verið í fiskinum á þessum slóðum, þannig að um gott hráefni hefur verið að ræða.
Þennan aðgang hafa Norðmenn nýtt sér, en haft er eftir Einari Meløysund að þetta geti veikt samningsstöðu Norðmanna. Bent er á að brexit sé handan við hornið og þá verði Bretar sjálfstæður viðsemjandi í viðræðum um makrílinn. Einar segir að hæglega hefði mátt byrja makrílveiðar fyrr í haust og þá í norskri lögsögu.
Í fyrra veiddu Norðmenn um 20% af makrílafla sínum í norskri lögsögu, samkvæmt löndunartölum sem þjóðirnar senda til Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins, NEAFC, og um 15% árið 2018. Hlutdeild makrílafla úr norskri lögsögu minnkaði hratt þessi ár. Færeyingar veiddu um 60% afla síns í færeyskri lögsögu í fyrra og um helming tvö ár þar á undan.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.