Áhrifavaldar reknir frá fornminjastað

Estefania Ahumada og Luis Caballero voru meðal þeirra áhrifavalda sem …
Estefania Ahumada og Luis Caballero voru meðal þeirra áhrifavalda sem reknir voru frá Uxmal.

Hópi áhrifa­valda sem voru í boðsferð um forn­minj­astaðinn Uxmal í Mexí­kó var gert að yf­ir­gefa staðinn eft­ir að þeir fylgdu ekki ein­föld­um sótt­varn­a­regl­um. 

Átta meðlim­um úr raun­veru­leikaþátt­un­um Acapu­lo Shore í Mexí­kó var boðið í ferðina um slóðir Maya-indjána af ferðamálaráðuneyti Yucatán-rík­is í þeim til­gangi að laða ferðamenn að svæðinu aft­ur.

Áhrifa­vald­arn­ir fóru fljót­lega að birta mikið af mynd­um og mynd­bönd­um af sér á forn­minj­astaðnum og mátti sjá á mynd­un­um að þau fylgdu ekki al­menn­um regl­um um sótt­varn­ir. Regl­urn­ar voru þær að þau þyrftu að bera grímu all­an tím­ann og halda fjar­lægðarmörk­um, í það minnsta hálf­um metra. 

Þegar starfs­fólk Uxmal tók eft­ir hegðun áhrifa­vald­anna ákvað það að grípa inn í og vísa þeim í burtu. Stjórn­völd í Yucatán-ríki hafa viður­kennt að um væri að ræða boðsferð til að laða fleiri ferðamenn að en segja að áhrifa­vald­arn­ir hafi ekki fengið greitt fyr­ir að koma. 

Í Uxmal á Yucatán-skaga í Mexí­kó er að finna stór­kost­leg­ar forn­minj­ar um Maya-indjána og þeirra menn­ingu. Loka þurfti forn­minj­astaðnum vegna heims­far­ald­urs­ins fyrr á þessu ári en var hann opnaður aft­ur 17. sept­em­ber síðastliðinn.

Yucatán Expat Life

mbl.is