Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út á öðrum tímanum í dag vegna elds sem upp kom í fiskiskipi úti fyrir Norðurlandi. Var sjóbjörgunarsveit Landsbjargar á Norðurlandi einnig kölluð út sem mun koma til með að flytja slökkviliðsmenn að skipinu. Þá voru önnur skip í grenndinni beðin um að halda til skipsins líka.
Áhöfn skipsins telur fjóra skipverja og náðu þeir fljótt að ráða niðurlögum eldsins og var þyrla gæslunnar því afturkölluð.
Eins og segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni um málið voru tvö önnur skip ansi fljót á staðinn og því ekki hætta á ferðum. Skipið er vélarvana og verður nú dregið að landi.