Fjórum var bjargað um borð í fiskibát eftir að lítið fiskiskip tók niðri á grynningu austur af Papey í kvöld, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðaustur- og Austurlandi voru kallaðar út á mesta forgangi eftir að lítið fiskiskip tók niðri á grynningu austur af Papey.
„Leki kom að fiskiskipinu og fjórir voru um borð. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá áhöfn skipsins klukkan 20:55. Þyrla Landhelgisgæslunnar var á æfingu þegar útkallið barst og tók rakleiðis stefnuna á slysstað. Jafnframt óskaði Landhelgisgæslan eftir því að skip og bátar í grenndinni héldu á staðinn. Klukkan 21:20 hafði tekist að bjarga öllum fjórum skipverjunum um borð í fiskibát sem kom á staðinn. Skip sem kemur til með að aðstoða við drátt á fiskiskipinu er væntanlegt á slysstað von bráðar“, segir í tilkynningunni.
Uppfært kl. 22.16: Fiskibáturinn er nú í drætti áleiðis til Djúpavogs. Reynt verður að halda honum á floti með dælum um borð. Hafdís, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar er komið á staðinn en björgunarskipin frá Hornafirði og Neskaupstað hafa verið afturkölluð. Þyrla Landhelgisgæslunnar verður í viðbragðsstöðu á Hornafirði meðan á björgunarstörfum stendur. Umhverfisstofnun hefur verið upplýst um málið.