„Sem betur fer höfðu dælurnar undan“

Frá björgunaraðgerðunum í gærkvöldi.
Frá björgunaraðgerðunum í gærkvöldi. Ljósmynd/Björgunarsveitin Bára

Fiskiskipið sem tók niðri á grynningu austur af Papey í gærkvöldi var komið til hafnar á Djúpavogi um miðnætti.

„Það er alltaf hætta á ferð þegar leki kemur í bát og viðbragðið var í samráði við það,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, spurður út í björgunaraðgerðirnar.

Ljósmynd/Björgunarsveitin Bára

Þyrla Gæslunnar var á æfingu þegar útkallið barst og var send rakleiðis austur. Hún beið átekta á flugvellinum á Höfn í Hornafirði en Sigríður, bátur Fiskeldis Austfjarða, dró fiskiskipið til hafnar.

„Í þessu tilviki var heppilegt og gott að það skyldu vera skip í grenndinni og eitt var komið fljótt á staðinn,“ segir Ásgeir og bætir við að um 25 mínútur hafi liðið þangað til búið var að bjarga skipverjunum. „Þetta gekk mjög hratt fyrir sig en engu að síður var þyrlan send á Höfn í Hornafirði og beið átekta þar,“ segir hann.

„Það er alltaf möguleiki þegar bátur er dreginn í þessu ástandi að hann sökkvi en sem betur fer höfðu dælurnar undan.“

Engu að síður flaug þyrlan til öryggis með aukadælu frá Höfn til Djúpavogs.

Ljósmynd/Björgunarsveitin Bára
mbl.is