Sveitarfélagið Ölfus og Fiskeldi Ölfuss hafa undirritað samkomulag um fýsileikakönnun og uppbyggingu laxeldis við Þorlákshöfn og vilyrði fyrir lóð. Með samkomulaginu hefur Fiskeldi Ölfuss undirbúning að rekstri landeldisstöðvar sem á að geta framleitt um 20.000 tonn af fullöldum eldislaxi á ári á 200.000 fermetra lóð á svæði í námunda við Þorlákshöfn. Áætluð útflutningsverðmæti gætu legið nærri 22 milljörðum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í fréttatilkynningu frá Ölfusi.
„Komandi kreppa og versnandi staða hagkerfis okkar leggur ríka ábyrgð á okkur hjá hinu opinbera að því er lýtur að nýrri verðmætasköpun. Eins og bent hefur verið á þá verðum við að framleiða okkur út úr kreppunni og þetta verkefni er sannarlega skref í þá átt,“ segir Elliði Vignisson m.a. í tilkynningu.
Sigurður Ingi Jónsson, verkefnastjóri hjá Fiskeldi Ölfuss, segir í tilkynningunni að það sé metnaður fyrirtækisins að vera leiðandi í fulleldi á laxi á landi og aðstæður við Þorlákshöfn séu á heimsmælikvarða.
„Ölfus er að okkar mati eitt helsta vaxtarsvæði á landinu með skýra sýn á innviðauppbyggingu svo sem hvað varðar stækkun hafnarinnar og áherslu þeirra á matvælaframleiðslu. Þá er til fyrirmyndar sá skilningur sem þar er hvað varðar hagsmuni fyrirtækja eins og okkar. Við horfum til dæmis sterkt til samvinnu innan Ölfus Cluster og teljum allar forsendur til þátttöku í þeim sóknarhug sem við finnum í Ölfusi.“