Félag fanga, Afstaða, fagnar fyrirætlunum Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra sem hyggst leggja fram tillögu til náðunarnefndar um að einstaklingar sem beðið hafa eftir að hefja afplánun í meira en þrjú ár verði náðaðir. Afstaða vill hins vegar að litið sé til allra dómþola óháð afbroti.
Í tillögu dómsálaráðherra kemur fram að náðunartillögur gildi einungis um þá einstaklinga sem ekki hafa dæmdir fyrir stórvægileg brot eða hlotið nýjan dóm.
„Stjórn Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, fagnar því sem fram hefur komið í fréttum um fyrirætlanir dómsmálaráðherra í þágu dómþola sem beðið hafa í meira en þrjú ár eftir afplánun í fangelsi. Aftur á móti telur Afstaða að jafnræðis verði að gæta og að allir dómþolar sem beðið hafa í meira en þrjú ár eftir afplánun eigi að sitja við sama borð enda hefur biðin verið jafn þungbær, sama hvaða ákvæði hegningarlaga viðkomandi hefur brotið gegn,“ segir í tilkynningu.
„Að sama skapi telur Afstaða rétt að hrósa Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra fyrir greinilegan áhuga á fangelsismálum og virðist sem ráðherrann taki undir flest baráttumál og áhersluatriði félagsins. Vonast Afstaða til þess að samstarfið við dómsmálaráðherra verði giftusamlegt áfram,“ segir í tilkynningu frá stjórn Afstöðu.