Uppáhaldsbar Íslendinga á eyjunni Tenerife sem er við Afríkustrendur verður opnaður aftur á morgun 8. október.
Barnum Nostalgíu var lokað í apríl vegna veirunnar og fóru eigendur hans, Herdís Hrönn Árnadóttir og sambýlismaður hennar Sævar Lúðvíksson, heim til Íslands í sumar.
Nú eru þau hins vegar komin aftur út og ætla að opna barinn með trompi með því að sýna leikinn Ísland-Rúmenía annað kvöld kl. 19.45.
Einvalaliðið sem fékk að finna til tevatnsins bak við barborðið á gamlárskvöld, Herdís Hrönn Árnadóttir, Hildur Ýr Aðalsteinsdóttir, dóttir Herdísar, og Sævar Lúðvíksson. Herdís og Sævar hafa rekið Íslendingabarinn Nostalgia á Tenerife síðan 2016 og eru orðin það rótgróin í Íslendingasamfélaginu að Herdís situr yfir íslenskum nemendum í prófum á barnum og kvennaklósettið var kjörklefi fyrir alþingiskosningarnar 2017.
mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson