Það er aldrei dauð stund hjá áhöfninni á varðskipinu Tý og hefur hún sinnt ýmsum verkefnum að undanförnu.
Meðal annars fór áhöfnin í tveggja klukkustunda prufuferð á léttbáti skipsins, í blíðskaparveðri í nágrenni Reykjavíkur, en léttbáturinn Loki hefur verið í viðhaldsskoðun og allt reyndist eins og til var ætlast. Loki er af gerðinni Rafnar 850 RIB CG og var hannaður í samvinnu við Landhelgisgæsluna.
Þegar þurfti að þrífa glugga Týs var ákveðið að nýta tækifærið og skella í sigæfingu. Auk þess var komið fyrir innsiglingadufli við höfnina á Skagaströnd og rafgeymar voru hlaðnir og leiðarljós yfirfarin í Miðleiðaskeri og Skarfakletti á Breiðafirði.
Landhelgisgæslan hefur birt töluvert af myndum af lífinu um borð á Facebook-síðu stofnunarinnar undanfarna daga, áhugamanna til mikillar ánægju.