4,5 milljarðar í hringrásarhagkerfi og fráveitumál

Alíslenskur grámávur flýgur með plast í gogginum.
Alíslenskur grámávur flýgur með plast í gogginum. mbl.is/Bogi Þór Arason

Gert er ráð fyr­ir 1,7 millj­örðum króna í þágu hringrás­ar­hag­kerf­is­ins í fjár­mála­áætl­un 2021-2025 með sér­stöku fjár­fest­ingar­átaki rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Fyr­ir var um 100 millj­óna króna ár­leg fjár­veit­ing til sömu verk­efna, að því er seg­ir í til­kynn­ingu.

Áhersla er lögð á aðgerðir sem ýta und­ir ábyrga fram­leiðslu og neyslu, að draga úr sóun, auka end­ur­vinnslu og end­ur­nýt­ingu og halda verðmæt­um í um­ferð eins lengi og hægt er. Á næsta ári fer hálf­ur millj­arður til þess­ara verk­efna.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfissráðherra.
Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son um­hverf­iss­ráðherra. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Frum­varp sem skyld­ar sér­söfn­un úr­gangs

„Efl­ing hringrás­ar­hag­kerf­is­ins var ein af mín­um megin­á­hersl­um þegar ég sett­ist í stól ráðherra og er það enn. Til þess að styðja við inn­leiðingu þess þarf að beita ýms­um stjórn­tækj­um s.s. hvöt­um til grænn­ar ný­sköp­un­ar og fræðslu. Ég mun leggja fram frum­varp í vet­ur sem skyld­ar sér­söfn­un úr­gangs en set­ur líka þær skyld­ur á okk­ar herðar að hætta að urða líf­ræn­an úr­gang. Þannig drög­um við úr sóun og úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda, en úr­gangs­mál eru líka mik­il­væg lofts­lags­mál“, seg­ir Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son, um­hverf­is- og auðlindaráðherra, í til­kynn­ing­unni.

2,8 millj­arðar til úr­bóta í frá­veitu­mál­um

Í fjár­mála­áætl­un 2021-2025 er jafn­framt gert ráð fyr­ir að 2,8 millj­örðum verði varið til úr­bóta í frá­veitu­mál­um á tíma­bil­inu í sér­stöku fjár­fest­ingar­átaki rík­is­stjórn­ar­inn­ar vegna kór­ónu­veirunn­ar. Þá hef­ur 200 millj­ón­um króna verið varið til frá­veitu­fram­kvæmda í ár en kveðið er á um átak í frá­veitu­mál­um í sam­starfi rík­is og sveit­ar­fé­laga í stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Átta hundruð millj­ón­um króna verður varið í frá­veitu­fram­kvæmd­ir á næsta ári sam­kvæmt fjár­laga­frum­varpi 2021.

mbl.is