Stundum þarf að skrifa svona grein

Ryuichi Sakamoto kom fram á frábærum tónleikum í Hörpu á …
Ryuichi Sakamoto kom fram á frábærum tónleikum í Hörpu á Sónar árið 2013 ásamt Taylor Deupree. Eggert Jóhannesson

„Af hverju ertu að skrifa um async?“ spurði viðmæl­andi minn nokkuð hissa þegar ég bar upp er­indið. Að spyrja hann út í þátt­töku sína á einni bestu til­rauna­plötu síðustu ára sem jap­anski meist­ar­inn Ryuichi Sakamoto gaf út fyr­ir þrem­ur árum. „Af því bara, stund­um þarf bara skrifa svona grein­ar,“ var svarið. Hver viðmæl­and­inn er kem­ur í ljós við lest­ur grein­ar­inn­ar.

Lík­lega hef­ur þú aldrei heyrt um async enda er heim­ur til­rauna­kenndr­ar raf­tón­list­ar ekki fyr­ir alla. Sakamoto er hins­veg­ar vel þekkt­ur og hef­ur gert smelli og stef sem all­ir ættu að kann­ast við.  

Það get­ur verið ágætt að leyfa tónlist að gerj­ast aðeins svo hægt sé að sjá hvað er raun­veru­lega gott og mun stand­ast tím­ans tönn. async er af­bragðs dæmi um það. Plat­an var gerð þegar Sakamoto var að ná sér upp úr erfiðum veik­ind­um en hann hafði fengið krabba­mein í háls­inn sem hon­um tókst að vinna bug á árið 2015. Verkið er því að miklu leyti mótað af þeirri reynslu. Hug­leiðing­ar um lífið og dauðann.

async kom út árið 2017 og fékk fínar viðtökur gagnrýnenda. …
async kom út árið 2017 og fékk fín­ar viðtök­ur gagn­rýn­enda. Besta plata árs­ins hjá framúr­stefnu­tón­list­ar­tíma­rit­inu FACT. Tit­ill­inn vís­ar til ósam­ræm­is. Snyrti­leg­ur hvers­dags­leiki er rif­inn úr sam­hengi á um­slag­inu.

Ísland­s­teng­ing­ar 

Þessa sögu þekkti ég ekki þegar ég hlustaði fyrst á plöt­una en samt sem áður tengdi ég þriðja lag plöt­unn­ar „sol­ari“ sam­stund­is við „Dán­ar­fregn­ir og jarðafar­ir“ Jóns Múla sem ætti að vera inn­gróið í sál allra Íslend­inga og bein­tengja þá við hug­leiðing­ar um dauðann. Það eru ein­hver lík­indi í lag­lín­unni og stemn­ing­unni sem tengdi lög­in sam­stund­is í hug­an­um.

Árið eft­ir út­gáfu async var gefið út safn af end­urút­gáf­um af lög­un­um á plöt­unni ASYNC - REMODELS. Þar gerði Jó­hann heit­inn Jó­hanns­son ein­mitt frá­bæra út­gáfu af „sol­ari“. Hvort hann hafi valið lagið vegna lík­ind­anna er spurn­ing sem lík­lega verður ekki svarað. 

Þetta er ekki eina Ísland­s­teng­ing­in sem er að finna á async. Þegar plat­an er um það bil hálfnuð byrj­ar lagið „hal­f­moon“ sem hefst á lestri rit­höf­und­ar­ins Paul Bow­les á kafla­broti úr bók sinni The Shelter­ing Sky frá ár­inu 1949 þar sem til­vistarpæl­ing­ar eru meg­inþemað. Sakamoto hafði ein­mitt gert tón­list­ina í sam­nefndri kvik­mynd. Á eft­ir Bow­les taka svo við radd­ir sem lesa brotið á ýms­um tungu­mál­um og und­ir ómar lág­stemmd­ur hljóðheim­ur Sakamotos. 

Þegar hlust­and­inn hef­ur mar­in­er­ast um stund í þess­um ómi af tungu­mál­um sem eru flest­um lík­lega óskilj­an­leg heyr­ist skyndi­lega í kunn­ug­legri röddu fara með orðin „En við vit­um ekki hvenær við deyj­um...“. Nú er ég lík­lega bú­inn að spilla fyr­ir flest­um þetta skemmti­lega óvænta augna­blik en það verður að hafa það. Þarna er rit­höf­und­ur­inn og listamaður­inn Andri Snær Magna­son mætt­ur og les upp texta Bow­les. 

„En við vit­um ekki hvenær við deyj­um. Þess vegna fer okk­ur að finn­ast lífið vera óþrjót­andi brunn­ur. Samt ger­ist allt aðeins nokkr­um sinn­um, í örfá skipti meira að segja. Hversu oft muntu rifja upp sér­stakt síðdegi bernsku þinn­ar? Síðdegi sem er svo samofið ver­öld þinni að þú get­ur vart hugsað þér lífið án þess. Kannski fjór­um sinn­um eða fimm sinn­um, jafn­vel ekki svo oft. Hversu oft muntu sjá full­an mána rísa á himni? Kannski tutt­ugu sinn­um. Samt virðist allt óþrjót­andi.

Rithöfundurinn Andri Snær Magnasonsem kemur við sögu á plötunni heldur …
Rit­höf­und­ur­inn Andri Snær Magna­son­sem kem­ur við sögu á plöt­unni held­ur mikið upp á Sakamoto. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Þegar það var orðið óumflýj­an­legt að skella í grein til að vekja at­hygli á snilld­inni á async varð ekki hjá því kom­ist að heyra í Andra Snæ um hvernig þetta sam­starf kom til. Aðdrag­and­inn var sá að Sakamoto hafði komið hingað til lands og tekið viðtal við Andra Snæ um um­hverf­is­mál á veg­um jap­ansks tíma­rits. Í eft­ir­mála um­hverf­is­slyss­ins í Fukus­hima þar sem kjarn­orku­slys varð í kjöl­far jarðskjálfta og flóðbylgju árið 2011 hef­ur Sakamoto verið ákaf­ur aðgerðasinni í um­hverf­is­mál­um. Síðan þá hafa þeir haldið sam­bandi og gjarn­an talað um sam­vinnu. Í raun er ekki mikið meira um það að segja annað en að lest­ur­inn var tek­inn upp í stúd­íó­inu hjá Helga Hrafni Jóns­syni og Tinu Dico á Seltjarn­ar­nesi. 

„En ég held mikið upp á Sakamoto og nota hann í kvik­mynda­gerð minni og líka þegar ég þarf að mýkja haus­inn fyr­ir skrif. Bæði þessa plötu og önn­ur verk eft­ir hann. Þetta er mjög fínt efni þegar maður þarf að losa á milli heila­hvela og allt það sem þarf að ger­ast til að kom­ast í gír,“ seg­ir Andri Snær í sam­tali við mbl.is. Það hef­ur haldið áfram að ein­hverju leyti og um síðustu helgi sá jap­anski meist­ar­inn um tón­list­ina í TED fyr­ir­lestri rit­höf­und­ar­ins um tím­ann og vatnið sem ég hvet alla til að kíkja á.

Ryuichi Sakamoto er fæddur árið 1952 og sló í gegn …
Ryuichi Sakamoto er fædd­ur árið 1952 og sló í gegn með Yellow Magic Orchestra á átt­unda ára­tugn­um en sveit­in gerði smelli sem náðu hátt á vest­ræn­um vin­sæld­arlist­um. Síðan hef­ur hann verið einn vin­sæl­asti tón­list­armaður Jap­ana. Ljós­mynd/​KAB America

Hvað sem Ísland­s­teng­ing­um líður er ein­hver gald­ur á plöt­unni sem ég er viss um að eigi eft­ir að skapa henni sess á meðal bestu verka Sakamoto. Bak­grunn­ur hans er fjöl­breytt­ur en eft­ir að hafa slegið í gegn með Yellow Magic Orchestra á síðari hluta átt­unda ára­tug­ar­ins sneri hann sér að kvik­mynda­tónlist og óhætt er að segja að hann hafi sigrað þann heim líka. Verðlauna dálk­ur­inn hans á wikipediu er býsna til­komu­mik­ill. Óskar­sverðlaun, BAFTA, Gold­en Globe, Emmy og Grammy. Þetta er allt þarna í bunk­um.

Við erum sum sé með þenn­an brautryðjanda í elektrón­ískri tónlist sem er með full­komið vald á út­setn­ing­ar­vinnu og hug­mynda­fræðinni á bak við tónlist sem stemn­ingu. Hafi ein­hver nokk­urn tíma verið með svarta beltið í mús­ík þá er það okk­ar maður. Eft­ir að hafa gengið í gegn­um allt sem fylg­ir því að grein­ast og tak­ast á við krabba­mein fer hann svo í gera async en þá höfðu liðið átta ár frá síðustu plötu hans und­ir eig­in nafni. Í viðtöl­um hef­ur hann talað um að veik­ind­in hafi skýrt sýn hans á hvernig tónlist það væri sem hann langaði til að gera. 

Eitt af því var að nota hljóð sem hann langaði sjálf­an til að heyra. Til að ná því fram gekk hann um göt­ur New York borg­ar þar sem hann býr og safnaði hljóðum sem hon­um þótti áhuga­verð og vann þau áfram í hljóðveri sínu. Þess­um hljóðbanka er svo dreift um plöt­una af ná­kvæmni og smekk­vísi.

Naum­hyggju­leg elektrón­ík­in er í aðal­hlut­verki á async, bæði í upp­bygg­ingu á hrynj­anda en líka í notk­un á  hljóðgervl­um og þar er Sakamoto á heima­velli. Þeir sem hafa prufað að búa til hljóð á slík­um tækj­um vita að það er hæg­ara sagt en gert. Það sem kann að hljóma ein­falt í fram­kvæmd á sér gjarn­an tölu­verðan aðdrag­anda þar sem leit­in að rétta hljóðinu get­ur verið tíma­frek og frú­st­rer­andi. 

Niðurstaðan er að hljóðheim­ur­inn á async með ólík­ind­um tær og ein­hvern­veg­inn rétt­ur. Það er eins og hann hafi alltaf verið til en á sama tíma er hann mjög nú­tíma­leg­ur. Hljóðgervl­ar og hefðbund­in hljóðfæri bland­ast vel sam­an. Japönsk hljóðfæri og pí­anó í full­kom­inni sátt við framtíðarleg­an raf­hljóm­inn. Stund­um er stór saga á bak við það sem í fyrstu hljóm­ar ein­falt. Til að mynda í lag­inu „Zure“ þar sem Sakamoto notaði pí­anó sem hafði verið bjargað neðan­sjáv­ar eft­ir flóðið 2011. Hug­mynd­in var að nýta feg­urðina í bjög­un­inni á hljómi pí­anós­ins sem hafði orðið til af nátt­úr­unn­ar völd­um.  

Í stað þess að búa til tónlist sem er ein­ung­is fal­leg og í ein­hverj­um skiln­ingi full­kom­in, sem hann er auðvitað full­fær um að gera, var far­in leið þar sem feg­urðin er inn­an um til­rauna­kennd­ari, erfiðari og óm­stríðari kafla. Hug­mynd­in er þó eitt og fram­kvæmd­in annað og hún geng­ur al­ger­lega upp.

Eitt af grund­vall­ar­hug­tök­un­um í jap­anskri fag­ur­fræði er að sjá feg­urðina í því sem er ófull­komið og því sem hrörn­ar. Ein­fald­leiki og fág­un án þess að krafa sé gerð um full­komn­un. Ekki er þörf á að kafa djúpt í jap­anska menn­ingu til að finna þessi stef og þau eru víða á plöt­unni. Í raun má segja að Sakamoto sjálf­ur kjarni hug­mynd­ina með gerð plöt­unn­ar þar sem hann er sjálf­ur tek­inn að eld­ast, hrörna og veikj­ast. Það er eitt­hvað al­veg ótrú­lega fal­legt við að taka þetta skref á þessu augna­bliki í ferl­in­um og skila því svona rak­leitt í sam­skeyt­in. Full­kom­in plata fyr­ir haustið.  

Ef allt gengur upp ættu hlustendur að vera komnir á …
Ef allt geng­ur upp ættu hlust­end­ur að vera komn­ir á þenn­an stað í hug­an­um þegar „garden", sem er síðasta lag plöt­unn­ar, klár­ast. mbl.is/​Hall­ur Már
mbl.is