„Kunnuglegt stef frá því fyrir hrun“

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kol­beinn Ótt­ars­son Proppé, þingmaður Vinstri grænna, gagn­rýndi nýtt rit Viðskiptaráðs Íslands í ræðu sinni á Alþingi í dag. Í rit­inu er fjallað um rekst­ur hins op­in­bera og hvatt til þess að ríkið minnki um­svif sín á sviði sam­fé­lags­mót­un­ar, þ.e. í því, sem ekki telst til grunnþjón­ustu og fram­færslu borg­ara.

„Ég verð að segja, for­seti, að ég vissi ekki al­veg hvaðan á mig stóð veðrið þegar ég kíkti á ný plögg Viðskiptaráðs Íslands,“ sagði Kol­beinn.

„Þar er nefni­lega að finna ýmsa gamla kunn­ingja, ef svo má að orði kom­ast. Þar eru til­lög­ur um hvernig megi minnka um­svif rík­is­ins í ýmsu, meðal ann­ars á sviði sam­fé­lags­mót­un­ar. Sam­eina rík­is­stofn­an­ir, les­ist hagræðing, draga úr lög­vernd­un og leyf­is­skyldu, les­ist eft­ir­liti, og hvernig eigi að ýta und­ir einka­starf­semi í ýmsu, til dæm­is heil­brigðis­kerf­inu.“

Úrelt hug­mynda­fræði ný­frjáls­hyggj­unn­ar

Í rit­inu, sem ber titil­inn Hið op­in­bera: Meira fyr­ir minna, er lagt til að hið op­in­bera þurfi að stuðla að því að einka­fjár­fest­ing auk­ist á ný með skatta­leg­um hvöt­um til ein­stak­linga og fyr­ir­tækja.

Þá er hvatt til auk­ins svig­rúms í einka­rekstri í heil­brigðis­kerf­inu með þeim orðum að op­in­bert fjár­magn eigi að fylgja sjúk­ling­um þangað sem þeir leita, en ekki að renna til stofn­ana sem slíkra.

„Þetta er kunn­ug­legt stef frá því fyr­ir hrun, frá því að við keyrðum sam­fé­lagið hér í þrot, frá ný­frjáls­hyggju­ár­un­um. Ég verð að segja, herra for­seti, að þetta eru ekki au­fúsu­gest­ir sem stinga upp koll­in­um núna, ekki í mín­um huga í það minnsta.

Það er morg­un­ljóst að það er til­efni til að staldra við núna og velta því fyr­ir sér hvað það er gott að rík­is­stjórn­in sé búin að efla op­in­bera heil­brigðis­kerfið og stofn­an­ir, hvað hið op­in­bera kerfi skipt­ir miklu máli, því úr­elt hug­mynda­fræði ný­frjáls­hyggj­unn­ar er ekki rétta leiðin út úr þess­ari kreppu. Rétta leiðin út úr krepp­unni er leið sam­neyslu og vel­ferðar,“ sagði Kol­beinn.



mbl.is