Svanhildur Hólm Valsdóttir er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþættinum, Snæbjörn talar við fólk. Það þarf ekki að kynna Svanhildi neitt sérstaklega en hún er hvað þekktust fyrir að hafa unnið í fjölmiðlum, bæði á RÚV og hjá Stöð 2. Hún var lengi aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra en nú er hún búin að ráða sig sem framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs og mun hefja störf 1. desember.
Svanhildur og eiginmaður hennar, Logi Bergmann, eru búin að vera saman í 17 ár og eiga samtals sjö börn. Hún átti einn son fyrir og hann fjórar dætur og svo eignuðust þau tvær dætur saman. Auk þess er Svanhildur orðin amma en elsti sonur hennar eignaðist barn í vor með unnustu sinni. Svanhildur segir að það sé svolítið fyndið að vera heima núna og hún sé endalaust að tala við Loga.
„Ég er búin að tala meira við Loga á þessum vikum en ég hef gert á þessum 17 árum. Ég held held hann sé ekki búinn að fá leið á mér,“ segir Svanhildur í viðtalinu við Snæbjörn.
Hún segir að vinnugleði skipti hana miklu máli og hún hafi gætt þess vel að brenna ekki upp.
„Það er hætta á því að maður brenni upp. Ég held að maður þurfi að taka það alvarlega og passa aðeins upp á hausinn á sér.“
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.