Katrín Tanja Davíðsdóttir er í öðru sæti á heimsleikum í crossfit sem fara þessa stundina fram í Norður-Karólínu. Fjórum viðureignum af fimm er lokið í dag og Katrín er töluvert mörgum stigum á eftir Tia-Clair Toomey, sem er í fyrsta sæti með yfirburðum.
Toomey er með 670 stig, Katrín með 425 og Haley Adams, næst á eftir Katrínu með 400 stig.
Katrín endaði í þriðja sæti eftir keppni gærdagsins en bilið á milli hennar og Toomey var þó öllu minna þá, aðeins um 110 stig. Toomey hefur því aukið verulega á forskotið með deginum í dag.
Ein viðureign er eftir í dag og hún hefur enn ekki verið tilkynnt. Viðureignir dagsins hafa verið fjölbreyttar, hlaup, lyftingar, hjól, en hefð er fyrir því að tilkynna tilteknar viðureignir með mjög stuttum fyrirvara.
Í karlaflokki virðist raunar mun frekar keppt um annað sætið en það fyrsta, slíkir eru yfirburðir Mathew Fraser, sem hefur verið hraustasti maður heims síðustu fjögur ár og lætur engan bilbug á sér finna núna. Björgvin Karl Guðmundsson er ekki í úrslitum.
Síðasta viðureign dagsins fer fram á tólfta tímanum á íslenskum tíma í kvöld, þar sem Katrín gæti nælt sér í stig og minnkað forskot Toomey. Það þarf mikið til að hún nái henni, en Toomey hefur verið hraustust kvenna síðustu þrjú ár. Þar á undan hafði það verið Katrín Tanja.