190 milljarðar í greiðsluhléi

Lausa­fjárstaða stóru bank­anna þriggja er sterk. Hinn 16. sept­em­ber áttu bank­arn­ir laus­ar eign­ir um­fram lág­marks lausa­fjár­kröf­ur sem námu tæp­lega 255 millj­örðum króna. Þetta er meðal þess sem kem­ur fram í fund­ar­gerð fjár­mála­stöðug­leika­nefnd­ar Seðlabanka Íslands í sept­em­ber. Staðan hafði lækkað um 15 millj­arða frá fundi nefnd­ar­inn­ar í júní.

„Álags­próf á lausa­fjár­stöðu bank­anna benda til að þeir þoli mikið út­flæði. Álag á er­lend­ar skulda­bréfa­út­gáf­ur bank­anna hafði lækkað veru­lega milli funda. Er þetta í sam­ræmi við alþjóðlega þróun. Álagið er nú held­ur hærra en fyr­ir far­sótt­ina.

Rúm lausa­fjárstaða í er­lend­um gjald­eyri hef­ur veitt bönk­un­um svig­rúm til að tak­ast á við krefj­andi markaðsaðstæður er­lend­is án þess að þeir hafi þurft að ráðast í skulda­bréfa­út­gáf­ur.

Vaxta­álag á sér­tryggðum bréf­um bank­anna um­fram rík­is­bréf hafði einnig lækkað áfram á milli funda og var svipað og fyr­ir út­breiðslu far­sótt­ar­inn­ar,“ seg­ir í fund­ar­gerðinni sem var birt á vef Seðlabanka Íslands í gær.

Eig­in­fjárstaða bank­anna sterk

Tap stóru bank­anna þriggja á fyrri helm­ingi árs­ins nam 700 millj­ón­um króna. Upp­gjör bank­anna voru lituð af auk­inni virðisrýrn­un og nam hún rúm­lega 23 ma.kr. á árs­helm­ingn­um. „Viðbúið er að til frek­ari virðisrýrn­un­ar komi á næstu árs­fjórðung­um drag­ist far­sótt­in á lang­inn.

Þrátt fyr­ir þetta er eig­in­fjárstaða bank­anna mjög sterk og var eig­in­fjár­hlut­fall þeirra að meðaltali 24,8% í lok júní sl. sam­an­borið við 22,4% í lok des­em­ber 2019.

Sterk eig­in­fjárstaða og aflétt­ing sveiflu­jöfn­un­ar­auk­ans veit­ir bönk­un­um svig­rúm til að tak­ast á við aukið út­lánatap og halda þrótti til nýrra út­lána á sama tíma.

Um miðjan sept­em­ber sl. voru um 190 ma.kr. af út­lán­um stóru bank­anna þriggja í greiðslu­hléi vegna far­sótt­ar­inn­ar. Það voru rúm­lega 6% af út­lán­um bank­anna til viðskipta­vina en hlut­fallið hafði lækkað hratt vik­urn­ar á und­an, þar sem 6 mánaða greiðslu­frest­ur var í mörg­um til­vik­um á enda runn­inn.

Greiðslu­hlé voru al­geng­ari hjá fyr­ir­tækj­um eða tæp­lega 9% sam­an­borið við rúm­lega 3% af út­lán­um til heim­ila. Nær fjórðung­ur út­lána til ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tækja var í greiðslu­hléi, um 12% af lán­um til þjón­ustu og um 10% lána til versl­un­ar. Hlut­fallið var lægra í öðrum at­vinnu­grein­um. Van­skil höfðu auk­ist. Frá ára­mót­um til loka júlí hafði hlut­fall út­lána bank­anna til heim­ila í van­skil­um hækkað úr 2,1% í 2,7% og hjá fyr­ir­tækj­um úr 4,8% í 8,9%,“ að því er seg­ir í fund­ar­gerð nefnd­ar­inn­ar. 

mbl.is