Samtals 639 fangar hafa verið beittir agaviðurlögum eftir að vímuefni mældist í þvagi þeirra á síðasta áratug, frá 2010 til 2020. Lang flestir þeirra voru vistaðir á Litla-Hrauni, eða 465. Næst flestir, eða 54 voru vistaðir í Hegningarhúsinu, en það nær hins vegar bara til ársins 2015, en eftir það var Hegningarhúsinu lokað sem fangelsi. Þetta má sjá á svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata.
Kostnaður Fangelsismálastofnunar vegna þvagprufa og úrvinnslu þeirra á þessu tímabili nemur 86,3 milljónum króna. Mest fór í þvagprufur á Litla-Hrauni, eða 44,8 milljónir, en 22,9 milljónir á Hólmsheiði, en þar voru agalagabrot 24 á árunum 2017-2020. Kostnaður vegna prufa í Hegningarhúsinu námu um 11,2 milljónum.
Miðað við þessar tölur var kostnaður við sýnatökur á hvert agabrot 135 þúsund krónur.
Flest agabrotin voru árið 2015 eða 89 samtals. Hefur þeim fækkað nokkuð síðustu ár og voru þannig 41 árið 2018, 37 árið 2019 og það sem af er þessu ári 24.
Kostnaður vegna prófanna var árið 2010 um 4,4 milljónir, en fór hæst upp í 14,6 milljónir í fyrra. Það sem af er þessu ári er kostnaðurinn 9,6 milljónir.