„Draumur trillukarlsins að geta lifað af þessu“

Georg Eiður Arnarson er Eyjamaður, trillu- og lundakarl og hefur …
Georg Eiður Arnarson er Eyjamaður, trillu- og lundakarl og hefur marga fjöruna sopið á langri útgerðarsögu. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Georg Eiður Arn­ar­son er Eyjamaður, trillu- og lunda­karl og hef­ur marga fjör­una sopið á langri út­gerðar­sögu. Kom­ist í hann krapp­an oft­ar en einu sinni. Misst báta, bæði í sjó­inn og til bank­ans en alltaf staðið upp aft­ur og er enn að. Sæk­ir í það sem nátt­úr­an gef­ur en er um leið nátt­úr­vernd­arsinni án þess kannski að hafa hug­mynd um það. Hef­ur skoðun á hlut­un­um og bend­ir óhikað á þegar hon­um finnst ekki rétt að farið. En um­fram allt er Georg Eiður skemmti­leg­ur karl og bara sátt­ur við Guð og menn þegar upp er staðið.

Hann er fædd­ur 1964 og byrjaði snemma á sjó. „Ég var tólf ára þegar ég fór einn túr í starf­s­kynn­ingu á Dala-Rafni VE með skóla­bróður mín­um þá, Engil­bert Eiðssyni, sem fór niður með Hellis­ey VE 1984. Var mikið sjó­veik­ur, ældi eins og múkki frá því við fór­um þar til við kom­um í land. Ég held ég hafi ælt dag­inn eft­ir líka,“ seg­ir Georg sem reyndi fyr­ir sér á tog­ara rúm­lega tví­tug­ur. Leist ekki á enda hlut­ur­inn ekki hár. „Það er annað í dag,“ seg­ir Georg sem stuttu seinna kaup­ir fyrstu trill­una.

Fyrstu skref­in í út­gerðinni

Hún hét Kóp­ur, eitt og hálft tonn og stýris­húsið ekki stærra en svo að hann horfði yfir það um leið og hann stýrði en stýrið var úti. Þetta var haustið 1987. Það er svo á fyrstu vertíðinni, 1988, að hann fær eld­skírn­ina sem trillu­sjó­maður. „Ég fer á sjó með tvær tölvu­vind­ur og er kom­inn inn á Danska hraun. Er að fara að ýta á start þegar kom­in er nokk­ur alda en al­veg logn. Áður en fær­in eru kom­in niður á 30 metr­ana er skyndi­lega kom­inn 20 metra storm­ur. Á þessu horni sigldi ég í land, allt á hlið og þegar ég kom í Faxa gengu öld­urn­ar yfir hann öðrum meg­in og upp úr hon­um hinum meg­in. Maður réð ekki við eitt eða neitt enda var þetta al­gjört horn en kom manni þó í land.“

Svavar Þór, sonur Georgs, með vænan þorsk. Ekki duga vettlingatökin.
Svavar Þór, son­ur Georgs, með væn­an þorsk. Ekki duga vett­linga­tök­in. Ljós­mynd/Ó​skar Pét­ur Friðriks­son

Næst kaup­ir Georg aft­ur­byggðan tré­bát sem er ennþá við Kletts­nefið við inn­sigl­ing­una til Vest­manna­eyja. „Um miðjan des­em­ber 1989 fer ég hérna vest­ur fyr­ir með línu. Það skell­ur á aust­an rok og þegar ég kem til baka eru skafl­arn­ir við Klett­inn. Þetta var eld­gam­all tré­bát­ur, op­inn og framþung­ur og á fyrstu öldu flaut yfir. Ég var hepp­inn, náði að snúa við, og kom­ast í var norðan við Heimaklett og lagði bátn­um á bóli. Það var al­gjör­lega ófært fyr­ir mig að ætla að kom­ast til hafn­ar og Rabbi á Kirkju­bæ náði í mig og fór með mig í land.“

Ætl­un­in var að ná í bát­inn dag­inn eft­ir en óveðrið hélst í þrjá daga. „Við fund­um aldrei bát­inn þannig að hann er þarna ein­hvers staðar á bóli,“ seg­ir Georg og glott­ir.

Ruglið byrjaði með Valdi­mars­dómn­um

Á þess­um bát byrjaði Georg að stunda línu­veiðar og líkaði það bet­ur en hand­fær­in. „Á þess­um tíma er þorsk­ur­inn kom­inn í kvóta en þú mátt­ir veiða frjálst í öðrum teg­und­um. Löngu, ýsu, karfa og fleiri teg­und­un­um. Eft­ir Valdi­mars­dóm­inn 1998 var allt sett í kvóta. Þá leist manni ekk­ert á þetta og þarna byrjaði ruglið og braskið sem er búið að vera síðustu 20 árin. Á síðustu fimm árum höf­um við séð teg­und­ir sem sett­ar voru í kvóta fara niður á við,“ seg­ir Georg á þar við litla karfa, gulllax, blálöngu og hlýra.

Hann er líka mjög ef­ins um aðferðir Hafró þegar kem­ur að mæl­ing­um á stærð ein­stakra fisk­teg­unda og nefn­ir keil­una, sem hann þekk­ir flest­um bet­ur. „Ég hafði sam­band við Hafró og vildi fá að heyra hvað væri í gangi með keil­una. Þá fékk ég að vita, það sem ég hafði heyrt áður, að þeir miða stöðu stofns­ins við hvað fæst á ein­hvern línu­spotta hjá Vís­is­bát­un­um í Grinda­vík. Sem eins og flest­ir vita fékk meira en helm­ing­inn af keilu­kvót­an­um. Nú er keilu­kvót­inn í sögu­legu lág­marki, 1.300 tonn en fyr­ir kvóta­setn­ingu var veiðin 10.000 tonn á Íslands­miðum. Málið er að það er nóg af keilu og það væri hægt að veiða all­an kvót­ann hér á Dranga­svæðinu,“ seg­ir Georg sem seiglaðist þrátt fyr­ir að vera með vind­inn í fangið.

Hætt­ir og hætt­ir við að hætta

„Já. Ég lenti í vand­ræðum og missti bát á upp­boð. Ætlaði að hætta en þetta er bakt­ería sem maður er með. Líka mikið veiðieðli og langaði að halda áfram.“

Það var ein­mitt það sem hann gerði, kaup­ir bát, ætlaði að hætta, kaup­ir bát, sel­ur og kaup­ir og er hepp­inn og óhepp­inn. Alls urðu bát­arn­ir níu og fljót­lega fá þeir Blíðunafnið sem Georg er oft kennd­ur við. Það var svo árið 2016 sem hann ætl­ar að slá lokatón­inn í út­gerð. Bát­ur­inn sem hann átti þá reynd­ist illa og hafði kostað hann minnst 15 millj­ón­ir króna.

Þeir fengu gott af skötu í róðrinum sem kemur sér …
Þeir fengu gott af skötu í róðrin­um sem kem­ur sér vel nú þegar stytt­ist í Þor­láks­mess­una. Ljós­mynd/Ó​skar Pét­ur Friðriks­son

„Þetta ár byrjaði ég hjá Vest­manna­eyja­höfn og fór í mjaðma­kúlu­skipti. Árið eft­ir næ ég að selja bát­inn. Var sátt­ur við að vera al­veg hætt­ur en til að friða bakt­erí­una kaupi ég mér litla tuðru. Var að þvæl­ast út með litla stöng til að leika mér en fann fljót­lega að það var ekki al­veg nóg. Það var mikið að gera í vinn­unni þannig að maður pældi ekki svo mikið í bá­ta­kaup­um. Um jól­in 2018 er okk­ur kynnt nýtt vakta­fyr­ir­komu­lag sem þýddi fleiri frí­daga, 11 daga á fimm vik­um fyr­ir utan helg­ar­frí. Í allt 110 daga fyr­ir utan sum­ar- og vetr­ar­frí. Bú­inn að selja allt sem tengd­ist út­gerðinni og átti kannski fyr­ir litl­um bíl.“

Bak­reikn­ing­ur frá rík­inu

Þarna er Georg nokkuð sátt­ur við lífið, skuld­laus að hann hélt. „En þá kem­ur þessi hel­vít­is, ég segi hel­vít­is sam­skött­un hjóna. Kon­an mín er ör­yrki og við þurft­um að greiða bæt­urn­ar tvö ár aft­ur í tím­ann. Þarna stönd­um við frammi fyr­ir því að vera í mín­us. Breyt­ing­in hjá höfn­inni og sam­skött­un­in verður til þess að ég kaupi þenn­an litla bát í fe­brú­ar í fyrra. Hann var í slæmu ástandi og kostaði mikla vinnu, tíma og pen­inga að laga hann. Hann skilaði þó því að ég tók 85 tonn upp úr sjó til loka fisk­veiðiárs­ins og um tólf tonn í sept­em­ber. Ég ákvað að gefa þessu séns í tvö ár og það hef­ur gengið vel. Ber hann Blíðunafnið með reisn.“

Georg þótt vænt um þegar hann fékk sím­tal að vest­an, frá Kristjáni Andra Guðjóns­syni á Ísaf­irði sem smíðaði bát­inn með föður sín­um. „Pabbi hans var Guðjón Arn­ar, fyrr­um þingmaður og skip­stjóri, sem ég þekkti vel. Þeir græjuðu hann með vél­inni sem er í hon­um. Þetta þótti mér skemmti­legt og ekki verra að það hef­ur gengið ágæt­lega á þess­um bát.“

Ljós­mynd/Ó​skar Pét­ur Friðriks­son

Þegar Georg er spurður um vinnu­fyr­ir­komu­lagið hjá sér í dag seg­ist hann bara vinna átta til níu tíma á dag sem flest­um þætti nóg. „Í dag byrjaði ég klukk­an átta í morg­un og var bú­inn klukk­an hálf­fjög­ur. Þá fór ég að beita. Til að of­keyra mig ekki beiti ég fram að kvöld­mat og þá er ég hætt­ur. Maður gæti verið að all­an sól­ar­hring­inn en þá brynni maður strax út. Ég legg þetta upp þannig að ég beiti eft­ir vinnu ef ég á frí. Beiti tvö eða þrjú bjóð ef ég er stuði. Ræ svo þegar ég á frí.“

Á föstu­degi eft­ir að viðtalið var tekið lagði hann í hörm­ung­ar­veðri. „Norðan 19 á Höfðanum þegar ég keyrði inn eft­ir. Bát­ur­inn er rétt fimm tonn. Með góða peru, dekkaður og ver sig lygi­lega vel og geng­ur ekki nema sex míl­ur að há­marki. Þannig að maður lufsaðist þetta inn eft­ir. Fer niður í tvær míl­ur við verstu skil­yrði en skil­ar manni í land þó það taki tíma.“

Erfitt að vera á leigu­markaði

Georg á eng­an kvóta og þarf því að leigja til sín fisk sem kost­ar sitt og ofan á það bæt­ast veiðigjöld­in. „Þetta var ekki góð send­ing en það sem hjálp­ar mér er að ég komst á samn­ing við fyr­ir­tæki á Suður­nesj­um sem kaup­ir af mér þorsk, ýsu og löngu á föstu verði. Þannig losna ég við sveifl­ur á markaðnum hérna. Með þessu veit maður hvað fisk­ur­inn sem maður leig­ir má kosta og hef ég ágæt­ar tekj­ur út úr þessu. Það eru þó blik­ur á lofti því Hafró hef­ur ákveðið að skera niður kvóta í löngu sem kem­ur illa við mig. Líka að kvóta­leiga á þorski er að nálg­ast 230 krón­ur fyr­ir kílóið. Sá sem leig­ir frá sér borg­ar eng­in veiðigjöld, en leigutak­inn þarf að borga ofan á þess­ar 230 krón­ur liðlega 13 krón­ur til rík­is­ins í formi veiðigjalda.“

Hann bend­ir á þver­sögn­ina með löng­una því um miðjan júlí var veiði á löngu kom­in í 100% sam­kvæmt út­hlutuðum kvóta en tala um veiðina hélt áfram að hækka. „Ég les 200 míl­ur á Mbl.is á hverj­um degi þar sem er að finna allt um sjáv­ar­út­veg. Á síðunni er dálk­ur, gang­ur veiða. Þar sést hvað búið er að veiða mikið af hverri teg­und í pró­sent­um. Um miðjan júlí stóð við löng­una 100% og einn og hálf­ur mánuður eft­ir af fisk­veiðiár­inu. En áfram hækk­ar tal­an, pró­sent­an var óbreytt og þannig var það í sex vik­ur. Þrátt fyr­ir þetta minnka þeir kvót­ann um 16% vegna þess að þeim finnst eitt­hvað sem stenst enga skoðun,“ seg­ir hann og dæs­ir við.

„Draum­ur trillu­karls­ins er að geta lifað af þessu en á bak við er kvóta­kerfið og bank­inn sem gera þetta erfitt. Þrátt fyr­ir allt þetta hef ég gam­an af þessu, sem held­ur manni gang­andi,“ seg­ir Georg sem á sér fleiri hliðar, var í fram­boði fyr­ir Frjáls­lynda á sín­um tíma og það væri efni í annað viðtal.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: