Flotinn skilaði 5% minni afla í október

Heildarafli fiskiskipanna minnkaði um 5% í október þessa árs miðað …
Heildarafli fiskiskipanna minnkaði um 5% í október þessa árs miðað við sama mánuð í fyrra. Þá dróst aflaverðmætið saman um 5,2% á sama tíma. mbl.is/Alfons Finnsson

Afli ís­lenskra fiski­skipa var 86.774 tonn í októ­ber 2020 sem er 5% minni afli en í októ­ber 2019, að því er fram kem­ur á vef Hag­stofu Íslands. Þar seg­ir að sam­drátt­inn sé einkum að rekja til upp­sjáv­ar­afl­ans en hann dróst sam­an um 12% og nam síld­arafl­inn í októ­ber 36 þúsund tonn­um sem er 27% minna en í sama mánuði í fyrra.

Botn­fiskafli var tæp 40 þúsund tonn sem er 3% aukn­ing sam­an­borið við októ­ber 2019. Af botn­fisk­teg­und­um nam þorskafl­inn tæp­um 24 þúsund tonn­um sem er svipaður afli og á fyrra ári en tæp­um sex þúsund tonn­um var landað af ýsu sem er 33% aukn­ing miðað við októ­ber 2019.

Þá var afla­verðmæti í októ­ber, metið á föstu verðlagi, 5,2% minna en í októ­ber 2019.

Á tólf mánaða tíma­bili, nóv­em­ber 2019 til októ­ber 2020, nam heild­arafli ís­lenskra fiski­skipa tæp­lega 1.016 þúsund tonn­um sem er 5% minni afli en á sama tíma­bili ári fyrr. Þá var sam­drátt­ur í ufsa 14%, í ýsu 23%, 13% í kol­munna og 10% í síld. Á móti kem­ur að á tíma­bil­inu jókst þorskafl­inn  um 1%, mak­rílafl­inn um 18% og flat­fiskafl­inn um 1%.

mbl.is