Minni samdráttur í þriðju bylgju en fyrstu

Kortavelt dróst minna saman í þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins en í …
Kortavelt dróst minna saman í þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins en í þeirri fyrstu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Korta­velta tengd versl­un og þjón­ustu inn­an­lands í októ­ber nam 67 millj­örðum króna og er aðeins 0,3% minni en í sama mánuði í fyrra miðað við fast verðlag. Þá nam er­lend korta­velta í októ­ber 9,4 millj­örðum króna sem er 52% minna en á sama tíma í fyrra.

Sam­an­lagður sam­drátt­ur korta­veltu í októ­ber var um 12% milli ára, en í mánuðinum voru sótt­varn­a­regl­ur hert­ar til muna. Fram kem­ur í nýrri hag­sjá Lands­bank­ans að um er að ræða mun minni sam­drátt í korta­veltu í þriðju bylgju kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins en í þeirri fyrstu, en þá dróst mánaðarleg korta­velta sam­an um 26% milli ára, 13% inn­an­lands og 68% er­lend­is.

„Þá var staðan að mörgu leyti önn­ur en nú, þar sem óvissa var meiri,“ seg­ir í hag­sjánni. Vísað er til þess að neyt­end­ur hafa fengið reynslu af þeim aðgerðum sem gripið er til í þeim til­gangi að hefta út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar. „Það kann að hafa þau áhrif að far­ald­ur­inn dragi minna úr neyslu fólks nú, sam­an­borið við stöðuna í fyrstu bylgju.“

Áfeng­is­versl­un eykst

Mesta aukn­ing­in í korta­veltu var í áfeng­is­versl­un­um og jókst slík velta um 65% í októ­ber, en að jafnaði hef­ur aukn­ing­in verið 40% milli ára frá því að far­ald­ur­inn hófst. Þá seg­ir að aukn­ing­in í bygg­ing­ar­vöru­versl­un­um, versl­un­um með heim­il­is­búnað, stór­mörkuðum og dag­vöru­versl­un­um hafi einnig verið meiri í októ­ber.

Korta­velta á veit­inga­stöðum dróst sam­an um 23% milli ára í októ­ber, á gististöðum um 35% milli ára í og um 50% hjá snyrti- og heilsu­tengdri þjón­ustu en tals­verðar lok­an­ir voru inn­an þess geira. Svipaður sam­drátt­ur varð í korta­veltu tengdri menn­ing­ar-, afþrey­ing­ar- og tóm­stund­a­starf­semi.

Inn­flutn­ing­ur eykst

Þá hef­ur inn­flutn­ing­ur á neyslu­vör­um hef­ur auk­ist nokkuð á síðustu mánuðum. Í sept­em­ber mæld­ist aukn­ing­in 7% milli ára miðað við fast gengi og 13% í ág­úst. Í hag­sjánni seg­ir að þessi aukn­ing sé „drif­in áfram af inn­flutn­ingi óvar­an­legra neyslu­vara sem eru vör­ur á borð við lyf, tób­ak, ým­is­kon­ar hrein­lætis­vör­ur og aðrar einnota vör­ur sem ætla má að hafi orðið vin­sælli sam­hliða út­breiðslu far­ald­urs­ins“.

Sam­hliða þessu hef­ur á síðustu mánuðum einnig auk­ist inn­flutn­ing­ur á var­an­leg­um og hálf­var­an­leg­um vör­um, svo sem heim­ilis­tækj­um og fatnaði. „Ákveðin kaup hafa orðið vin­sælli en önn­ur, og tíma fólks varið öðru­vísi en áður. Það er lík­legt að í mörg­um til­fell­um sé um bein áhrif vegna far­ald­urs­ins að ræða og gangi venj­ur því aft­ur í sama far þegar far­aldr­in­um linn­ir.“

mbl.is