Kortavelta tengd verslun og þjónustu innanlands í október nam 67 milljörðum króna og er aðeins 0,3% minni en í sama mánuði í fyrra miðað við fast verðlag. Þá nam erlend kortavelta í október 9,4 milljörðum króna sem er 52% minna en á sama tíma í fyrra.
Samanlagður samdráttur kortaveltu í október var um 12% milli ára, en í mánuðinum voru sóttvarnareglur hertar til muna. Fram kemur í nýrri hagsjá Landsbankans að um er að ræða mun minni samdrátt í kortaveltu í þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins en í þeirri fyrstu, en þá dróst mánaðarleg kortavelta saman um 26% milli ára, 13% innanlands og 68% erlendis.
„Þá var staðan að mörgu leyti önnur en nú, þar sem óvissa var meiri,“ segir í hagsjánni. Vísað er til þess að neytendur hafa fengið reynslu af þeim aðgerðum sem gripið er til í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. „Það kann að hafa þau áhrif að faraldurinn dragi minna úr neyslu fólks nú, samanborið við stöðuna í fyrstu bylgju.“
Mesta aukningin í kortaveltu var í áfengisverslunum og jókst slík velta um 65% í október, en að jafnaði hefur aukningin verið 40% milli ára frá því að faraldurinn hófst. Þá segir að aukningin í byggingarvöruverslunum, verslunum með heimilisbúnað, stórmörkuðum og dagvöruverslunum hafi einnig verið meiri í október.
Kortavelta á veitingastöðum dróst saman um 23% milli ára í október, á gististöðum um 35% milli ára í og um 50% hjá snyrti- og heilsutengdri þjónustu en talsverðar lokanir voru innan þess geira. Svipaður samdráttur varð í kortaveltu tengdri menningar-, afþreyingar- og tómstundastarfsemi.
Þá hefur innflutningur á neysluvörum hefur aukist nokkuð á síðustu mánuðum. Í september mældist aukningin 7% milli ára miðað við fast gengi og 13% í ágúst. Í hagsjánni segir að þessi aukning sé „drifin áfram af innflutningi óvaranlegra neysluvara sem eru vörur á borð við lyf, tóbak, ýmiskonar hreinlætisvörur og aðrar einnota vörur sem ætla má að hafi orðið vinsælli samhliða útbreiðslu faraldursins“.
Samhliða þessu hefur á síðustu mánuðum einnig aukist innflutningur á varanlegum og hálfvaranlegum vörum, svo sem heimilistækjum og fatnaði. „Ákveðin kaup hafa orðið vinsælli en önnur, og tíma fólks varið öðruvísi en áður. Það er líklegt að í mörgum tilfellum sé um bein áhrif vegna faraldursins að ræða og gangi venjur því aftur í sama far þegar faraldrinum linnir.“