Hámýs seint taldar til nytjastofna

Geirnyt (Chimaera monstrosa) er aðeins eitt af nokkrum nöfnum sem …
Geirnyt (Chimaera monstrosa) er aðeins eitt af nokkrum nöfnum sem til eru fyrir þessa fisktegund. Hún hefur verið nefnd hámús, hafmús, rottufiskur og jafnvel særotta. Fiskurinn hefur ekki þótt eftirsóttur í matargerð. Ljósmynd/Havforskningsinstituttet

Fyr­ir rösk­um 20 árum voru furðufiska­dag­ar nokkr­um sinn­um á mat­seðlin­um á veit­ingastaðnum Jónatan Li­ving­st­one Máv við Tryggvagötu. Þar elduðu Úlfar Finn­björns­son og sam­starfs­fólk rétti úr sjald­séðum fisk­um og óvenju­legu sjáv­ar­fangi. Fram kom í Morg­un­blaðinu vet­ur­inn 1997 að þá voru meðal ann­ars á mat­seðlin­um bökuð geirnyt með engi­fer- og gul­rót­arsósu og grillaður brodd­bak­ur með grænertusósu.

Sam­starfsmaður á Morg­un­blaðinu rifjaði upp kvöld­verð fyr­ir mörg­um árum hjá Úlfari Ey­steins­syni á Þrem­ur frökk­um. Þar var meðal ann­ars boðið upp á geirnyt og sagði sam­starfsmaður­inn að rétt­ur­inn hefði verið sér­kenni­leg­ur og minnt á graut. Hann bað ekki um ábót!

Held­ur er geirnyt sjald­gæf á fisk­mörkuðunum. Þar hef­ur fisk­ur­inn ekki verið seld­ur í ár, en tvö kíló 2018 fyr­ir fimm krón­ur kílóið. 300 kíló voru seld 2016, 15 og 16 kíló tvö ár þar á und­an og 872 kíló voru seld af geirnyt á mörkuðunum 2013.

Sex teg­und­ir við Ísland

Sex teg­und­ir svo­kallaðra hámúsa finn­ast á hafsvæðinu við Ísland. Ekki telj­ast þær til nytja­fiska og ekki er lík­legt að svo verði. Til­raun­ir hafa þó verið gerðar til að nýta geirnyt og þá gjarn­an þegar sneiðst hef­ur um afla úr öðrum teg­und­um. Há­mýs mynda und­ir­flokk brjósk­fiska og eru ná­skyld­ar sköt­um og háf­um.

Í skýrslu sem fjór­ir sér­fræðing­ar á Haf­rann­sókna­stofn­un hafa tekið sam­an um há­mýs kem­ur fram að yf­ir­leitt komi eitt­hvað af þess­um teg­und­um í trollið í stofn­mæl­ing­um. Skýrsl­an er sam­an­tekt á gögn­um um út­breiðslu og helstu líf­fræðileg­um þátt­um hámúsa byggð á ára­tuga­langri sýna­söfn­un í stofn­mæl­inga­leiðöngr­um Haf­rann­sókna­stofn­un­ar.

Sú lengsta 110 sentí­mert­ar

Aðal­höf­und­ur er Klara Björg Jak­obs­dótt­ir fiski­fræðing­ur og seg­ir hún að rann­sókn­ir á þess­um teg­und­um hafi auk­ist á síðustu árum, en margt sé enn óljóst um þær. Aðspurð seg­ir hún ekki lík­legt að nýta megi þess­ar teg­und­ir. Stofn­arn­ir séu viðkvæm­ir og ekki stór­ir. Viðkoma teg­und­anna sé lít­il og t.d. gjóti/​hrygni þeir yf­ir­leitt aðeins tveim­ur pét­urs­skip­um, sem reynd­ar séu líf­væn­leg.

Fjór­ar teg­und­ir hámúsa eru af hámúsa­ætt; geirnyt, stutt­nef­ur, dig­ur­nef­ur og hvít­nef­ur. Af trjónuætt eru lang­nef­ur og trjónu­fisk­ur.

Mynd/​Haf­rann­sókna­stofn­un

Útbreiðsla flestra teg­und­anna virðist vera bund­in við hlýj­an sjó frá miðum og djúp­miðum suðaust­an­lands til Græn­lands­sunds. Geirnyt er al­geng­asta hámúsa­teg­und­in í stofn­mæl­inga­leiðöngr­um Haf­rann­sókna­stofn­un­ar og er út­breiðsla henn­ar ólík hinum að því leyti að hún held­ur sig grynnra og í til­tölu­lega hlýrri sjó. Geirnyt get­ur orðið 120 senti­metra löng eða lengri, en er oft­ast 70-95 cm. Lengsta geirnyt á Íslands­miðum mæld­ist 110 cm.

Stutt­nef­ur, dig­ur­nef­ur, hvít­nef­ur, lang­nef­ur og trjónu­fisk­ur flokk­ast sem djúp­sjáv­ar­teg­und­ir og af þeim er trjónu­fisk­ur al­geng­ast­ur. Sjald­gæf­asta hámús­in í stofn­mæl­inga­leiðöngr­um er hvít­nef­ur sem hef­ur aðeins fund­ist sjö sinn­um yfir það tutt­ugu ára tíma­bil sem rann­sókn­in spann­ar. Lang­nef­ur veidd­ist að meðaltali á mesta dýpi en stutt­nef­ur og hvít­nef­ur í kald­asta sjón­um. Niður­stöður skýrsl­unn­ar benda til að geirnyt og trjónu­fiski hafi fjölgað og jafn­framt að trjónu­fiski hafi fjölgað á norðlæg­ari svæðum út­breiðslunn­ar, þ.e. djúpt vest­ur af landi.

Mörg heiti á fisk­un­um

Ýmis nöfn hafa verið notuð á þessa fiska og þá yf­ir­leitt geirnyt­ina. Lík­lega eru há­mýs og hákett­ir al­geng­ustu heit­in, einnig haf­mús og háfmús. Heitið rottu­fisk­ur er einnig þekkt og er það þýðing úr ensku. Það heiti gæti tengst því að sporður fisk­anna minn­ir á hala, auk þess sem þeir eru með trjónu og sam­vaxn­ar tenn­ur.

Um fjölda fiska á Íslands­miðum er á vís­inda­vef Há­skól­ans vitnað til „fiska­tals“ sem Gunn­ar Jóns­son fiski­fræðing­ur tók sam­an. Þar kem­ur fram að árið 2000 hafi verið vitað um 360 fisk­teg­und­ir sem fund­ist hefðu í ís­lenskri lög­sögu, sum­ar þeirra mjög sjald­gæf­ar. Af þess­um 360 teg­und­um voru 39 teg­und­ir brjósk­fiska, þar af 19 háf­fisk­ar, 14 skötu­teg­und­ir og sex há­mýs. Bein­fiska­teg­und­irn­ar voru 319. Í heims­höf­un­um þekkj­ast 24-25 þúsund fisk­teg­und­ir, seg­ir á Vís­inda­vefn­um.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: