Markaðsvirði Brims hækkað um 18 milljarða á árinu

Hver hlutur í Brim hefur hækkað um 9,1 krónu á …
Hver hlutur í Brim hefur hækkað um 9,1 krónu á árinu og er nú 48,65 krónur á hlut. Hækkunin það sem af er ári nemur því 23%. Guðmundur Kristjánsson er stærsti hluthafinn. mbl.is/Hari

Markaðsvirði Brims hf. hefur hækkað gífurlega það sem af er ári samkvæmt skráningu kauphallarinnar. Þar er skráð verð á hvern hlut 48,65 krónur og er því heildarverðmæti fyrirtækisins 95,1 milljarður króna miðað við að tæplega tveir milljarðar hluta eru í félaginu.

Í upphafi árs var virði bréfs í Brim 39,55 krónur sem þýðir að markaðsvirði fyrirtækisins var 77,3 milljarðar króna og að verð á hvern hlut hafi hækkað um 9,1 krónu á árinu. Skráð markaðsvirði Brims er því nú um 17,8 milljarða meira en í upphafi árs og nemur hækkunin 23%.

Síðasta hækkun bréfanna var nokkur en hún kom í kjölfar þess að níu mánaða uppgjör félagsins var birt. Fram kom að Brim hagnaðist um 3,5 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins. Þá voru rekstrartekjur 34,7 milljarðar króna og var það 25% aukning frá sama tímabili í fyrra. Eigið fé fyrirtækisins jókst jafnframt um 4% milli ára og var 54 milljarðar króna við lok þriðja ársfjórðungs.

Enn ekki ráðinn nýr forstjóri

Stærsti hluthafi í Brim hf. er Útgerðarfélag Reykjavíkur sem fer með 33,92% hlut, en það félag er í eigu Guðmundar Kristjánssonar sem einnig á hluti í gegnum ER-13 ehf. Samanlagt fer því Guðmundur með 43,97% hlut í félaginu.

Næst stærsti hluthafinn er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins sem í gegnum tvær deildir fer með 16,54% hlut og er þriðji stærsti hluthafinn Lífeyrissjóður verslunarmanna sem fer með 10,69%. Þá fer KG-Fiskverkun ehf. með 6,88% hlut en það félag er í eigu Hjálmars Kristjánssonar sem er bróðir Guðmundar. Aðrir hluthafar eiga innan við 3% hlut í félaginu.

Að því sem 200 mílur komast næst hefur enn ekki verið ráðinn nýr forstjóri Brims en Guðmundur, sem situr í stjórn félagsins, tilkynnti að hann myndi láta af störfum 30. apríl. Kristján Þ. Davíðsson stjórnarformaður hefur verið starfandi forstjóri síðan.

mbl.is