„Við höfum verið þeirrar skoðunar að það verði vertíð í vetur og við byggjum það fyrst og fremst á því að 83 milljarðar einstaklinga hafi fundist í loðnumælingunni sem fram fór í fyrrahaust,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, í samtali við 200 mílur.
„Það á að gefa viðunandi loðnuvertíð, þ.e.a.s. 300.000 til 400.000 tonn og jafnvel meira.“
Fregnir þess efnis að skipið Polar Amaroq hafi siglt fram á loðnu komi ekki á óvart. Málin muni svo skýrast enn betur í janúar.
„Það er náttúrulega auðveldast að ná utan um hana í janúar og þá fara væntanlega fjögur skip og reyna að ná utan um svæðið. Við erum bara hóflega bjartsýnir. Vísindin segja að það eigi að verða ágætis loðnuvertíð,“ segir hann.
Eftir loðnubrest undanfarin tvö ár mun vertíð hafa jákvæð áhrif fyrir atvinnustig fyrirtækisins, þótt vinnu sé ávallt að finna að austan: „Það eru alltaf næg verkefni,“ segir Friðrik.
Þó skipti mestu máli að viðhalda markaðnum, sem er mjög dýrmætur.
„Hann er algjörlega tómur í hrygningaloðnu og loðnuhrognum í dag. Fyrirtæki á Íslandi hafa þjónustað þessa markaði í tugi ára þannig að það skiptir öllu máli að hafa vöru fyrir þessa markaði áfram,“ segir Friðrik.
Felst ekki í þessu ákveðin innspýting í hagkerfið?
„Ef menn fá þrjátíu milljarða vertíð þá hefur það góð áhrif á alla, á Ísland hf. eins og ég kalla það. Fyrir landið í heild, ekki veitir af.“