SFS leggur 65 milljónir króna til loðnuleitar

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi ætla að leggja sitt af mörkum …
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi ætla að leggja sitt af mörkum til að farið verði í loðnuleiðangur í desember. Ljósmynd/Ólafur Óskar Stefánsson

Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi (SFS) hef­ur ákveðið að bjóða Haf­rann­sókna­stofn­un jafn­v­irði 65 millj­óna króna til loðnu­leit­ar og -mæl­inga í des­em­ber og er styrkn­um ætlað að greiða að fullu fyr­ir út­hald fjög­urra mæli­skipa í allt að 24 daga, kvörðun þeirra og vinnu sér­fræðinga Haf­rann­sókna­stofn­un­ar. Þetta kem­ur fram í frétta­til­kynn­ingu frá SFS.

Í til­kynn­ing­unni seg­ir að hætta sé á því að  mæl­ing­ar verði „ónóg­ar til þess að unnt sé að ráðleggja veiðar á loðnu“ í leiðangri Haf­rann­sókna­stofn­un­ar í janú­ar 2021, þar sem „tíma­bil vetr­ar­mæl­inga er jafn­an stutt og á tíma þegar veður eru vá­lynd.“ Þá seg­ir jafn­framt þekkt að loðnan fari hratt yfir og að hegðun henn­ar sé óút­reikn­an­leg. „Vera kann að hún sé fyrr á ferðinni nú en síðastliðin tvö ár.“

30 millj­arðar í húfi

Benda sam­tök­in á að mæl­ing­ar á loðnu­stofn­in­um hafa gengið brös­ug­lega á síðustu tveim­ur árum og að það hafi gert það að verk­um að engi loðnu­vertíð varð tvö ári í röð, sem hef­ur ekki gerst frá því að loðnu­veiðar hóf­ust við Ísland.

Minn­ir SFS á leiðang­ur­inn sem far­inn var í nóv­em­ber hafi skilað sýn­um sem gefa til „vís­bend­ing­ar um góðar göng­ur kynþroska loðnu í lög­sög­unni.“ Sá leiðang­ur var far­inn að frum­kvæði SFS en í sam­starfi við Haf­rann­sókna­stofn­un.

„Góð loðnu­vertíð get­ur að lík­ind­um aukið út­flutn­ings­tekj­ur um 30 millj­arða króna og marg­föld­un­ar­áhrif í hag­kerf­inu öllu eru að lík­ind­um tvö­föld eða þreföld, líkt og með aukn­um tekj­um starfs­manna sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja, sveit­ar­fé­laga og þjón­ustuaðila sjáv­ar­út­vegs,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

mbl.is