Kyrrsetning á verðmætustu eign Samherja í Namibíu, togaranum Heinaste, hefur verið felld úr gildi og togarinn seldur til namibíska útgerðarfyrirtækisins Tunacor Fisheries.
Aðrar eignir í Namibíu, sem eru óverulegar, sæta enn kyrrsetningu en mál tengd þeim verða leyst á komandi mánuðum í samráði við stjórnvöld, að því er fram kemur á vef Samherja.
„Ríkisútvarpið hefur síðustu daga fjallað um skjal sem lagt var fram til að rökstyðja kyrrsetninguna. Í frétt í fyrrakvöld var ranglega fullyrt að félög tengd Samherja í Namibíu hafi fengið jafnvirði 4,7 milljarða króna í „ólöglegan ágóða“ af samningi um veiðar við fyrirtækið Namgomar Namibia. Fréttin gaf mjög brenglaða mynd af þessum samningi og starfseminni í Namibíu,“ segir á vef Samherja.
„Í fréttinni var rangt farið með umfang veiðanna og tekjur af þeim. Þá var ekki tekið fram að sú fjárhæð sem var tilgreind felur í sér áætlaðar heildartekjur áður en skattar og gjöld hafa verið dregin frá. Í fréttinni var fullyrt að áætlaðar heildartekjur vegna samningsins yfir fimm ára tímabil væru hinn „ólöglegi ágóði“ en ekkert minnst á skatta og gjöld, laun og annan rekstrarkostnað á tímabilinu. Þessi hugtakanotkun Ríkisútvarpsins er fjarstæðukennd enda þýðir orðið „ágóði“ almennt gróði eða hagnaður,“ segir enn fremur.