Versta gjöf Lindu P. frá gömlum kærasta

Linda segir jólin einstaklega góðan tíma en engin afsökun til …
Linda segir jólin einstaklega góðan tíma en engin afsökun til að viðhalda markmiðum sínum. Ljósmynd/Ásta Kristjánsóttir

Linda Pét­urs­dótt­ir, at­hafna­kona, fyrr­ver­andi Ung­frú heim­ur og lífs- og þyngd­artaps­ráðgjafi á Íslandi um þess­ar mund­ir, verður á heim­ili sínu á Álfta­nesi á jól­un­um og seg­ist taka des­em­ber­mánuði fagn­andi þar sem hann skipti fjöl­skyldu henn­ar miklu máli. 

„Des­em­ber er stór mánuður í minni fjöl­skyldu. Við systkin­in þrjú eig­um öll af­mæli í des­em­ber, önn­ur mág­kona mín og þrjár bræðradæt­ur. Þannig að við erum sjö af­mæl­is­börn í des­em­ber, auk þess eiga for­eldr­ar mín­ir brúðkaup­saf­mæli  og svo eru jól­in auðvitað á þess­um tíma líka.“ 

Alin upp við hefðbund­in ís­lensk jól

„Ég er alin upp við hefðbund­in ís­lensk jól þar sem jóla­tréð var sett upp á Þor­láks­messu og allt var mun lág­stemmd­ara en það er í dag. Ég á ekk­ert nema góðar minn­ing­ar úr æsku í kring­um jól­in. Við klædd­um okk­ur upp á í spari­föt­in og jól­in voru hringd inn með  jóla­mess­unni á rás 1. Þannig er það reynd­ar enn í dag, sama hvar í heim­in­um við erum, að part­ur af hefðinni er að hlusta á mess­una á RÚV. Við Ísa­bella mín höf­um út­búið okk­ar eig­in hefðir og njót­um þess­ar­ar hátíðar báðar tvær.“

Linda seg­ir að bú­seta henn­ar í Banda­ríkj­un­um og Kan­ada hafi án efa áhrif á það hvernig hún held­ur jól­in í dag.

„Ég hef ef­laust sankað að mér hefðum, sér í lagi frá Banda­ríkj­un­um og Kan­ada og þá helst í formi þess að byrja að skreyta snemma. Einnig erum við með hefðina að hafa jóla­sokka á am­er­ísk­an máta og að opna þær gjaf­ir í nátt­föt­un­um á jóla­dags­morg­un meðan við sötr­um heitt kakó. 

Önnur hefð er sú að við mæðgur vilj­um helst vera í nýju jóla­nátt­föt­un­um okk­ar á aðfanga­dags­kvöld og ger­um það ef við erum tvær, en þegar for­eldr­ar mín­ir eru hjá okk­ur í mat klæðum við okk­ur upp á. Pabba fannst það held­ur furðulegt að hafa okk­ur mæðgur á nátt­föt­un­um í jóla­matn­um, þannig að við tök­um til­lit til þess og klæðum okk­ur upp á fyr­ir þau, en för­um svo bara í nátt­föt­in sem fyrst á eft­ir.“

Hug­ar að heils­unni alltaf

Hugs­arðu um heils­una á jól­un­um?

„Mín heilsu­heim­speki er hluti af mín­um dag­lega lífs­stíl, óháð árstíðum.“

Linda seg­ir að jól­in á Húsa­vík hafi verið ynd­is­leg­ur tími með stór­fjöl­skyld­unni. 

„Við fór­um til afa og ömmu úr báðum ætt­um þar sem all­ir komu sam­an. Við vor­um með laufa­brauðsgerð, sögu­stund­ir og aðrar nota­leg­ar minn­ing­ar sem gott er að ylja sér við.“

Hvað ger­ir þú aldrei á jól­un­um?

„Ég reyni að forðast að lifa eft­ir orðunum „aldrei“ og „alltaf “ því þær áhersl­ur geta breyst eins og ég og því hef ég tamið mér að halda mig við milli­veg­inn en ætli það sé ekki helst að ég neyti ekki kjöts úr dýra­rík­inu.“

Ekki all­ar gjaf­ir jafn góðar

Hver er besta gjöf­in sem þú hef­ur fengið á jól­un­um?

„Það er allt sem dótt­ir mín hef­ur út­búið handa mér sjálf. Svo plat­an Litli Mexí­kan­inn með Kötlu Maríu sem ég fékk að mig minn­ir árið 1981. Ég man hvað ég var yfir mig ánægð með gjöf­ina, ég fékk að vaka fram eft­ir, spilaði plöt­una á Fergu­son-plötu­spil­ar­an­um sem pabbi og mamma höfðu keypt í Kaup­fé­lag­inu og þótti nú al­deil­is flott­ur. Ég sat með stór heyrn­ar­tól og spilaði og söng eins og eng­inn væri morg­undag­ur­inn.“

En sú versta?

„Ég fékk svo hallæris­lega jóla­gjöf frá kær­asta eitt sinn að ég get ekki sagt frá því hér, af til­liti við hann.“

Ger­ir þú eitt­hvað fyr­ir þig sér­stak­lega á jól­un­um?

„Aðallega að slaka á, vera í nú­inu og njóta ein­fald­leik­ans. Mér finnst gott að slaka á, lesa bók og leyfa mér að taka blund. Við spil­um og hlust­um á fal­lega tónlist. Svo er hress­andi að fara sam­an í göngu­túr með hund­ana. Mér finnst þessi tími töfr­um lík­ast­ur og ekki verra ef maður er ást­fang­inn á jól­um. Það er ákveðin róm­an­tík og gleði í loft­inu á þess­um árs­tíma.“

Milli­bit­ar ekki nauðsyn­leg­ir

Áttu ráð fyr­ir fólk sem vill forðast það að þyngj­ast um jól­in?

„Jóla­hátíðin nálg­ast hratt og henni fylgja oft ansi marg­ar ástæður til að sleppa sér í ljúf­feng­um mat og drykk. Ef þú vilt mark­visst skipu­leggja þig og fyr­ir­byggja þyngd­ar­aukn­ingu og van­líðan sem fylg­ir ofáti, þá eru hér nokk­ur ráð frá mér til að halda þér á beinu braut­inni.
 
Þú þarft ekki á milli­bit­um að halda. Slepptu þeim al­veg. Heil­inn mun ef­laust segja þér að þú mun­ir deyja sam­stund­is lát­ir þú ekki eft­ir þér að fá þér, en trúðu mér, þú lif­ir það af! Þetta snýst um að vera meðvitaður um hugs­an­ir sín­ar og lang­an­ir. Leyfðu löng­un að fara í gegn án þess að svara henni með mat. Fáðu þér held­ur vatns­glas og bíddu í 15 mín­út­ur. Ef þú ert enn svöng/​svang­ur þá færðu þér að borða. Ann­ars ekki. Stund­um erum við ein­fald­lega þyrst þegar við telj­um okk­ur vera svöng.
 
Nær­ing er und­ir­staða heils­unn­ar. Þess vegna er mik­il­vægt að hugsa um það sem við setj­um ofan í okk­ur og hvaðan það kem­ur. Í hvert sinn sem við borðum eða drekk­um ætt­um við að spyrja okk­ur: „Mun þetta hafa já­kvæð eða nei­kvæð áhrif á lík­ama minn?“  
 
Gerðu skrif­legt matarpl­an. Skrifaðu niður dag­inn áður hvað þú ætl­ar ná­kvæm­lega að borða og drekka næsta dag, og farðu að fullu eft­ir því. Útbúðu matarpl­an sem ger­ir þér lík­am­lega gott. Reyndu að ákveða svo­kallaðan „mat­ar­glugga“ sem er sá tími sem þú ætl­ar að borða og þar með „fasta með hlé­um“, sem er tím­inn utan mat­ar­glugg­ans. Sem dæmi gæt­irðu ákveðið að mat­ar­glugg­inn þinn sé frá átta um morg­un til átta að kveldi, sem eru tólf tím­ar, og þá fast­arðu í aðra tólf tíma. Prufaðu þig áfram og finndu út hvað hent­ar þér best. Stattu með sjálfri/​sjálf­um þér og taktu ábyrgð. Með því að ákveða fyr­ir­fram not­arðu fram­heil­ann til að taka bestu ákvörðun­ina fyr­ir framtíðarsjálfið þitt í stað þess að láta und­an frum­heil­an­um sem vill umb­un strax! Þú lær­ir smám sam­an að standa með sjálfri þér og virða eig­in ákv­arðanir. Og þú munt upp­skera ár­ang­ur.

Fyr­ir þá sem vilja létt­ast, eða ekki bæta á sig, er kjörið að fá sér súper­drykk (ofurþeyt­ing) í staðinn fyr­ir máltíð. Þetta er bæði ein­föld og áhrifa­rík leið til þess að halda auka­kíló­un­um í skefj­um yfir hátíðirn­ar. Þú ein­fald­lega skipt­ir út einni máltíð fyr­ir einn súper­drykk. Það er gott að neyta hans í morg­un- eða há­deg­is­verð, og mörg­um finnst það vera besta leiðin til að halda sér á beinu braut­inni. Að hefja dag­inn á holl­ustu­bombu eins og þess­ir súper­drykk­ir eru hjálp­ar flest­um að velja betri og holl­ari mat yfir dag­inn. 

Upp­lagt að hafa 28 daga heilsu­áskor­un­ina með í gegn­um hátíðirn­ar, og fá sér einn súper­drykk á dag. Þá veistu að þú færð þér holl­ustu­bombu í eina máltíð og get­ur þá leyft þér að njóta seinni máltíða án sam­visku­bits.“

Áttu góða upp­skrift sem þú ert til í að deila með les­end­um?

„Það eru svo marg­ar góðar upp­skrift­ir að alls kyns kræs­ing­um að ég vil helst benda fólki á að fá sér einn súper­drykk á dag og auka við græn­meti. Þess vegna læt ég fylgja hér með upp­skrift að ein­um slík­um, gott á móti öllu át­inu og sæt­ind­un­um sem eru í boði.“

Jarðarberja- og goðaberjaþeyt­ing­ur
 

Þeyt­ing­ar eru auðveld, fljót­leg og áhrifa­mik­il leið til að gefa lík­am­an­um orku og hlaða hann af miklu magni nær­ing­ar­efna. Með því að bæta nær­ing­ar­ríkri of­ur­fæði út í blönd­una eyk­urðu nær­ing­ar­gildi henn­ar til muna. 

Goðaber (goji ber) búa yfir átta mik­il­væg­um amínó­sýr­um og geta styrkt ónæmis­kerfið, viðhaldið blóðsyk­urs­gild­um og dregið úr liðagigt­ar­verkj­um. 

Þessi þeyt­ing­ur er stút­full­ur af syk­ur­snauðum berj­um og stuðlar að því að halda blóðsykri og insúlí­n­gild­um í skefj­um. 

Inni­hald:

2 msk þurrkuð goðaber

1 msk chia­fræ

1 bolli snyrt jarðarber

1 fros­inn ban­ani

2 boll­ar möndl­umjólk

1/​2 tsk hun­ang (ef fólk vill)

hand­fylli af klök­um 

Aðferð:

Allt sett í bland­ara og þeytt sam­an þangað til drykk­ur­inn er orðinn silkimjúk­ur.

mbl.is