Handtökuskipun sögð gefin út á hendur Samherjamönnum

Samherji hætti allri starfsemi í Namibíu í lok árs í …
Samherji hætti allri starfsemi í Namibíu í lok árs í fyrra. Því er haldið fram í Namibian Sun að handtökuskipun hafi verið gefin út á hendur tveimur nafngreindum starfsmönnum. mbl.is/Sigurður Bogi

Namib­ísk yf­ir­völd eru sögð hafa gefið út hand­töku­skip­un á hend­ur tveim­ur nafn­greind­um starfs­mönn­um Sam­herja vegna meintra brota þeirra í tengsl­um við mútu­greiðslur þar í landi, að því er fram kem­ur í skjöl­um frá ákæru­vald­inu í Namib­íu sem þarlenda dag­blaðið Nami­bi­an Sun kveðst hafa und­ir hönd­um.

Starfs­menn­irn­ir sem um ræðir eru Ingvar Júlí­us­son, fjár­mála­stjóri Sam­herja á Kýp­ur, og Eg­ill Helgi Árna­son, fram­kvæmda­stjóri Mermaria Sea­food Nami­bia.

Þá tel­ur embætti rík­is­sak­sókn­ara í Namib­íu að ástæða sé til að gera ráð fyr­ir að Esja Hold­ings, Mermaria Sea­food, Saga Sea­food og Esja In­vest­ments hafi átt aðild að spill­ing­ar­máli þar í landi er snýr að kvóta í brynstirtlu, sem einnig er þekkt sem hrossamakríll.

Ávinn­ing­ur Sam­herja er met­inn af embætti rík­is­sak­sókn­ara þar ytra og tal­inn vera 547 millj­ón­ir namib­íudoll­ara eða um 4,7 millj­arðar króna.

Vísa full­yrðing­um á bug

Í yf­ir­lýs­ingu sem Sam­herji send­ir namib­íska blaðinu seg­ir að lög­reglu­yf­ir­völd í Namib­íu hafi ekki gert neina til­raun til þess að yf­ir­heyra starfs­menn fyr­ir­tæk­is­ins sem nafn­greind­ir hafa verið í skjöl­um máls­ins í sam­bandi við meint lög­brot.

„Namib­ísk yf­ir­völd hafa enga laga­lega heim­ild til að krefjast framsals ís­lenskra rík­is­borg­ara þar sem akki er í gildi framsals­samn­ing­ur milli ríkj­anna. […] Reynd­ar virðast emb­ætt­is­menn í Namib­íu gera sér fulla grein fyr­ir því að þeir munu ekki geta haft af­skipti af nú­ver­andi eða fyrr­ver­andi starfs­mönn­um Sam­herja, þar sem yf­ir­völd í Namib­íu, eða önn­ur yf­ir­völd sem starfa fyr­ir þeirra hönd, hafa ekki gert neina til­raun til að hafa sam­band við neinn af þess­um ein­stak­ling­um eða fyr­ir­tækið sjálft, á Íslandi eða í öðrum lönd­um, þar sem viðkom­andi starfs­menn hafa verið að vinna,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ing­unni.

Vís­ir greindi fyrst frá.

mbl.is