Handtökuskipun sögð gefin út á hendur Samherjamönnum

Samherji hætti allri starfsemi í Namibíu í lok árs í …
Samherji hætti allri starfsemi í Namibíu í lok árs í fyrra. Því er haldið fram í Namibian Sun að handtökuskipun hafi verið gefin út á hendur tveimur nafngreindum starfsmönnum. mbl.is/Sigurður Bogi

Namibísk yfirvöld eru sögð hafa gefið út handtökuskipun á hendur tveimur nafngreindum starfsmönnum Samherja vegna meintra brota þeirra í tengslum við mútugreiðslur þar í landi, að því er fram kemur í skjölum frá ákæruvaldinu í Namibíu sem þarlenda dagblaðið Namibian Sun kveðst hafa undir höndum.

Starfsmennirnir sem um ræðir eru Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur, og Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Mermaria Seafood Namibia.

Þá telur embætti ríkissaksóknara í Namibíu að ástæða sé til að gera ráð fyrir að Esja Holdings, Mermaria Seafood, Saga Seafood og Esja Investments hafi átt aðild að spillingarmáli þar í landi er snýr að kvóta í brynstirtlu, sem einnig er þekkt sem hrossamakríll.

Ávinningur Samherja er metinn af embætti ríkissaksóknara þar ytra og talinn vera 547 milljónir namibíudollara eða um 4,7 milljarðar króna.

Vísa fullyrðingum á bug

Í yfirlýsingu sem Samherji sendir namibíska blaðinu segir að lögregluyfirvöld í Namibíu hafi ekki gert neina tilraun til þess að yfirheyra starfsmenn fyrirtækisins sem nafngreindir hafa verið í skjölum málsins í sambandi við meint lögbrot.

„Namibísk yfirvöld hafa enga lagalega heimild til að krefjast framsals íslenskra ríkisborgara þar sem akki er í gildi framsalssamningur milli ríkjanna. […] Reyndar virðast embættismenn í Namibíu gera sér fulla grein fyrir því að þeir munu ekki geta haft afskipti af núverandi eða fyrrverandi starfsmönnum Samherja, þar sem yfirvöld í Namibíu, eða önnur yfirvöld sem starfa fyrir þeirra hönd, hafa ekki gert neina tilraun til að hafa samband við neinn af þessum einstaklingum eða fyrirtækið sjálft, á Íslandi eða í öðrum löndum, þar sem viðkomandi starfsmenn hafa verið að vinna,“ segir í yfirlýsingunni.

Vísir greindi fyrst frá.

mbl.is