Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út í gær vegna veikinda eins skipverja togskips sem statt var um 50 sjómílur norðaustur af Horni.
Skipstjóri skipsins hafði samband við stjórnstöð Gæslunnar síðdegis og óskaði eftir aðstoð. TF-GRO, þyrla Landhelgisgæslunnar, tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli á fimmta tímanum og var komin að skipinu rúmri klukkustund síðar.
Vel gekk að hífa skipverjann um borð í þyrluna og um klukkan 18:00 var aðgerðum þyrlusveitar við skipið lokið. Skipverjinn var fluttur á Landspítalann í Fossvogi en þar lenti þyrlan á áttunda tímanum í gærkvöld að því er segir á Facebook-síðu Landhelgisgæslunnar í gær.