Púðurskot skipherra til heiðurs gerði fólk skelkað

Það var töluvert umstang í Reykjavíkurhöfn vegna starfsloka Halldórs B. …
Það var töluvert umstang í Reykjavíkurhöfn vegna starfsloka Halldórs B. Nelletts, en púðurskotum var hleypt af honum til heiðurs. Ljósmynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Nokkrum virðist hafa brugðið þegar drunur eða sprengingar heyrðust í miðborg Reykjavíkur í dag og höfðu einhverjir þeirra samband við mbl.is vegna þessa.

Ekki var þó ástæða til að óttast þar sem einungis var um að ræða púðurskot af varðskipinu Tý til heiðurs Halldóri B. Nellet skipherra sem kom til hafnar í síðasta sinn á varðskipinu Þór, en tæp hálf öld er síðan hann hóf störf hjá Landhelgisgæslunni.

„Þetta er áralöng hefð að þegar skipherrar ljúka starfsferlinum hefur þessi háttur verið hafður á að hleypt er af þremur púðurskotum,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í samtali við 200 mílur. Hann segir að samhliða púðurskotunum hafi áhöfnin á Tý staðið heiðursvörð, en það er á leið til sjós nú þegar Þór hefur komið til hafnar.

„Þetta er móttaka fyrir Halldór sem nú er að ljúka störfum eftir tæplega 50 ár,“ bætir Ásgeir við.

mbl.is