Hart deilt um kvóta á aðalfundi LS

Landssamband smábátaeigenda hefur enn ekki kosið nýjan formann. Miklar umræður …
Landssamband smábátaeigenda hefur enn ekki kosið nýjan formann. Miklar umræður um tilhögun grásleppuveiða töfðu framhaldsfundinn sem haldinn var á föstudag. mbl.is/Alfons Finsson

Enn hef­ur ekki verið hægt að kjósa nýj­an formann Lands­sam­band smá­báta­eig­enda (LS) þrátt fyr­ir að tveir mánuðir eru frá því að aðal­fund­ar­störf hóf­ust. Taf­ir hafa orðið meðal ann­ars vegna mik­illa deilna milli fé­lags­manna um ágæti kvóta­setn­ingu grá­sleppu­veiða.

Fyrsti hluti aðal­fund­ar fé­lags­ins var hald­inn 15. októ­ber en þá var ákveðið var að fresta fundi vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. Starfi mál­efna­nefnda var þó haldið áfram í millitíðinni. Fram­hald aðal­fund­ar­ins fór fram föstu­dag­inn 11. des­em­ber og stóð til að af­greiða álykt­an­ir og for­manns­kjör, en Þor­lák­ur Hall­dórs­son sem gengt hef­ur embætti for­manns hef­ur ákveðið að sækj­ast ekki eft­ir end­ur­kjöri.

Þá sækj­ast tveir eft­ir embætti for­manns LS, Arth­ur Boga­son og Gunn­ar Ingi­berg Guðmunds­son.

Ekki tókst að láta for­manns­kjörið fara fram þar sem umræður um kvóta­setn­ingu grá­sleppu­veiða dróg­ust á lang­inn. Fram kem­ur á vef sam­bands­ins að hart hafi verið deilt um málið, en á end­an­um hafi meiri­hlut­inn ákveðið að samþykkja álykt­un­ina sem bor­in var und­ir fund­inn og kveður hún á um að sam­bandið hafni „öll­um hug­mynd­um um kvóta­setn­ingu á grá­sleppu“.

At­kvæðin féllu þannig að 26 greiddu at­kvæði með til­lög­unni, 16 gegn og 3 sátu hjá.

Vert er að nefna að ný­verið fékk Kristján Þór Júlí­us­son, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, af­henta stuðnings­yf­ir­lýs­ingu frá meiri­hluta grá­sleppu­veiðileyf­is­hafa vegna frum­varps um kvóta­setn­ingu veiðanna. Það er því ekki ein­hug­ur um málið þrátt fyr­ir að meiri­hluti at­kvæða á fundi LS hafi verið greidd gegn kvóta­setn­ingu.

Leggja til breyt­ing­ar

Þá samþykkti meiri­hlut­inn að betra væri að gera um­bæt­ur á gild­andi fyr­ir­komu­lagi grá­sleppu­veiða og í því felst meðal ann­ars að heim­ila veiðar frá 20 mars, grá­sleppu­leyfi hvers báts gildi að lág­marki í 25 veiðidaga, veiðidag­ur telst vera hver dag­ur sem net hjá viðkom­andi báts eru í sjó, heim­ila sam­ein­ingu leyfa og að veiðidag­ar sem flutt­ir eru frá bát skulu að há­marki vera tólf.

Jafn­framt tel­ur aðal­fund­ur LS að til­laga Haf­rann­sókna­stofn­un­ar um leyfi­leg­an heild­arafla verði að liggja fyr­ir eigi siðar en 1. apríl.

mbl.is