Önnur aurskriða náði niður að tveimur húsum

Ljósmynd af annarri aurskriðunni sem féll í dag.
Ljósmynd af annarri aurskriðunni sem féll í dag. Ljósmynd/Aðsend

Að minnsta kosti ein aur­skriða til viðbót­ar féll á Seyðis­firði um hálf­níu­leytið í kvöld. Hún náði niður að tveim­ur hús­um sem þegar var búið að rýma.

Kristján Ólaf­ur Guðna­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á Aust­ur­landi, seg­ir ekki gott að átta sig á stærðinni á aur­skriðunni í myrkr­inu og bæt­ir við að staðan verði tek­in í fyrra­málið.

„Þetta sýn­ir bara að það er ennþá hreyf­ing þarna og mik­il­vægt að fara var­lega,“ seg­ir hann.

Ekki er gert ráð fyr­ir því að neinn gisti í fjölda­hjálp­ar­stöðinni sem var sett upp í bæn­um vegna aur­skriðanna tveggja sem féllu fyrr í dag. Kristján Ólaf­ur seg­ir flesta ef ekki alla hafa yf­ir­gefið stöðina og að fólkið hafi fengið gist­ingu ann­ars staðar. Hún verður svo opnuð á nýj­an leik í fyrra­málið.

Þegar mest lét voru 67 manns í fjölda­hjálp­ar­stöðinni en rétt um 120 íbú­ar þurftu að fara úr hús­um sín­um vegna aur­skriðanna.

Aðspurður hvernig fólkið í bæn­um hef­ur tekið at­b­urðunum í dag seg­ir hann að það vera mjög ró­legt. „Menn taka bara því sem að hönd­um ber,“ seg­ir hann.

Stutt er síðan fundi al­manna­varna rík­is­lög­reglu­stjóra, Veður­stof­unn­ar og lög­regl­unn­ar á Aust­ur­landi lauk vegna aur­skriðanna. Að sögn Rögn­vald­ar Ólafs­son­ar hjá al­manna­vörn­um var staðan tek­in fyr­ir nótt­ina. Hann seg­ir Veður­stof­una gera ráð fyr­ir svipuðu veðri áfram fyr­ir aust­an.

mbl.is