Meta stöðuna klukkan hálf ellefu

Aurskriður féllu á Seyðisfirði í gær.
Aurskriður féllu á Seyðisfirði í gær. Ljósmynd/Aðsend

„Spáin er því miður ekki hagstæð,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Austurlandi. 

Í tilkynningu sem barst rétt í þessu frá Lögreglunni á Austurlandi segir að talsverð úrkoma sé nú á Seyðisfirði og gert sé ráð fyrir að það ástand vari í nótt.

„Því er ekki talið óhætt að fara inn á rýmingarsvæðið í bítið líkt og heimilað var í morgun. Staðan verður endurmetin klukkan hálf ellefu í fyrramálið. Næstu tilkynningar er því að vænta um klukkan hálf tólf á morgun. Frekari upplýsingar má finna hjá vettvangsstjórn aðgerða í húsi björgunarsveitarinnar Ísólfs frá klukkan átta í fyrramálið,“ segir í tilkynningunni.

Þá bendir aðgerðarstjórn á að fjöldahjálpastöð Rauða krossins í Herðubreið á Seyðisfirði sé áfallahjálp í boði. Íbúar sem telja sig hafa þörf fyrir aðstoð eru hvattir til að nýta sér þann kost.

mbl.is