Veitt aðstoð við að sækja nauðsynjar

Aurskriður féllu á byggð á Seyðisfirði í gær.
Aurskriður féllu á byggð á Seyðisfirði í gær. Ljósmynd Diljá Jónsdóttir

Ekki hafa fallið fleiri aur­skriður á byggð á Seyðis­firði í nótt en hættu­ástandi var lýst yfir í bæn­um á tólfta tím­an­um í gær­kvöldi. Á annað hundrað íbú­ar þurftu að yf­ir­gefa heim­ili sín í gær og gistu þeir hjá vin­um og ætt­ingj­um í nótt. Áfram er spáð úr­komu á Aust­fjörðum.

Eng­inn gisti í fjölda­hjálp­ar­stöð Rauða kross­ins á Seyðis­firði í nótt en hún verður opin í dag þannig að fólk get­ur leitað þangað eft­ir aðstoð og upp­lýs­ing­um. Eins ef fólk, sem hef­ur þurft að yf­ir­gefa heim­ili sín, þarf að sækja nauðsynj­ar þá verður veitt aðstoð við það.

Kristján Ólaf­ur Guðna­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á Aust­ur­landi, seg­ir að í birt­ingu verði aðstæður skoðaðar. Ekki ligg­ur fyr­ir hversu lengi hættu­ástandið var­ir en ólík­legt er að það breyt­ist á meðan úr­kom­an er jafn mik­il og raun ber vitni.

Um 50 hús voru rýmd und­ir Botna­brún í gær. Hús­in voru rýmd að skriður tóku að falla úr hlíðinni síðdeg­is í gær. Síðan hafa fleiri skriður fallið sem meðal ann­ars hafa náð niður í garða í efri hluta bæj­ar­ins á svæðum sem voru rýmd. Jarðveg­ur í neðri hluta hlíða er orðinn vatns­mettaður eft­ir mikl­ar rign­ing­ar síðustu vik­una og spáð er áfram­hald­andi NA-átt með úr­komu sem verður lík­lega að mestu snjó­koma til fjalla.

Um 120 manns yf­ir­gáfu heim­ili sín í gær og enn er tal­in hætta á skriðuföll­um. Gripið var til þess­ara aðgerða til þess að draga úr lík­um á slys­um á fólki en enn má bú­ast við eigna­tjóni. Enn geng­ur aur úr skriðusár­inu í Botn­um sem hef­ur náð inn í bæ­inn. Skriða féll síðast rétt um tíu­leytið í gær­kvöldi en ekki er talið að hún hafi valdið mikl­um skemmd­um.

Óvissu­stigi vegna skriðuhættu var lýst yfir á Aust­fjörðum í gær og er enn í gildi. Auk Seyðis­fjarðar hafa fallið skriður neðarlega í hlíðum á Eskif­irði og við ut­an­verðan Fá­skrúðsfjörð. Kristján seg­ir að áfram verði fylgst vel með á þess­um stöðum. 

mbl.is