Ástandið á Seyðisfirði metið aftur í birtingu

Aurskriður féllu á Seyðisfirði á þriðjudag. Hér má sjá skriðuna …
Aurskriður féllu á Seyðisfirði á þriðjudag. Hér má sjá skriðuna í hlíðinni. mbl.is/Pétur Kristjánsson

Enn er hættustig í gildi á Seyðisfirði vegna skriðuhættu. Á annað hundrað íbúa á svæðinu hafa ekki fengið að snúa aftur á heimili sín að fullu síðan skriður féllu þar á fimmtudagseftirmiðdag. Ástandið verður aftur metið í birtingu, samkvæmt nýjustu upplýsingum frá almannavörnum.

Veðurstofan hafði ekki fengið upplýsingar um frekari skriðuföll í byggð á Seyðisfirði í nótt þegar blaðamaður hafði samband. 

Einnig er óvissustig í gildi á öllu Austurlandi vegna skriðuhættu en íbúar á Eskifirði, á ákveðnum svæðum nærri Lambeyrará og Grjótá, hafa verið beðnir um að fara að öllu með gát og fylgjast með aðstæðum.

Mikilli rigningu spáð áfram

Veðurstofa Íslands hefur gefur gefið út appelsínugula úrkomuviðvörun sem gildir til klukkan 9.00. Áfram er mikilli rigningu spáð en hún mun valda auknum grunnvatnsþrýstingi og viðhalda þannig hárri grunnvatnsstöðu.
„Áfram er því hætta á vatnsflóðum og skriðuföllum. Mikið álag er á fráveitukerfi og miklar líkur á vatnstjóni. Klukkan níu í fyrramálið tekur svo við gul úrkomuviðvörun hjá Veðurstofunni fyrir sama svæði. Þá er spáð áframhaldandi talsverðri rigningu með sömu áhrifum og tilheyrandi hættu,“ segir í færslu almannavarna á Facebook. 
Lögreglan á Austurlandi
Í gær voru fráveitukerfi í bænum og götur hreinsaðar af aur sem gekk inn í bæinn þegar skriðurnar féllu.
Hér er hægt að kynna sér varnir og viðbúnað vegna aurskriðu.
mbl.is