Óvissustig enn í gildi - mikill samhugur í fólki

Frá Seyðisfirði.
Frá Seyðisfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hættustig almannavarna er enn í gildi á Seyðisfirði vegna skriðuhættu. Staðan þar er óbreytt frá í dag og rýming enn í gildi. Óvissustig er á öllu Austurlandi. Þrjú hlaup urðu í dag í Búðará auk aurskriðuflóðs við Selstaði og lokaðist vegur vegna þess. Þá féll lítil skriða á Eskifirði sem ekki þykir kalla á frekari viðbúnað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Enn er spáð úrkomu austanlands sem fara á aukandi með hléum fram á sunnudag. Því er ljóst að hlíðin ofan Seyðisfjarðar sé enn óstöðug og búast má við skriðum í takt við aukna úrkomu.

Á Seyðisfirði er hreinsunarstarf hafa gengið vel. Þar hefur aur og vatn runnið inn í nokkur hús en samhugur er sagður í íbúum. Mikið og gott starf hefur verið unnið af hendi.

Veðurstofan mælir enn með rýmingum sem sjást á mynd hér að neðan. Þar eru einnig merkt varúðarsvæði þar sem íbúum er bent á að fara gætilega, enn geti orðið þar skriður. Þá er mælt með að fólk dveljist ekki eða gisti í herbergjum á jarðhæð sem snúa að hlíðinni eða ofan í kjöllurum húsa. 

Enn er þeim tilmælum beint til fólks að ferðast ekki til Seyðisfjarðar að óþörfu. Vegna sóttvarnarsjónarmiða er svæðið talið viðkvæmt. Á meðan ástandið varir eru þeir sem hyggjast ferðast til Seyðisfjarðar beðnir um að leita til lögreglu um ráð í síma 444-0600 eða í gegnum netfangið austurland@logreglan.is.



Kort/Lögreglan
Seyðisfjörður.
Seyðisfjörður. mbl.is/Pétur Kristjánsson
mbl.is