Hefur dælt tíu sinnum úr húsinu sínu

Davíð fyrir utan húsið sitt.
Davíð fyrir utan húsið sitt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aur­skriða ligg­ur að húsi Davíðs Krist­ins­son­ar og fjöl­skyldu hans á Seyðis­firði og flætt hef­ur stöðugt inn í húsið. „Það held­ur bara áfram að leka inn í það. Ég er bú­inn að koma tíu sinn­um og dæla úr því,“ seg­ir hann í sam­tali við mbl.is.

Unnið er að því að reyna að koma jarðvegi frá hús­inu og sjá hvað veld­ur lek­an­um en svo virðist sem það leki inn á milli gólfplatna.

Spurður út í tjónið seg­ist hann ekki vera kom­inn með yf­ir­sýn yfir það. „Ég er eng­inn bygg­inga­verk­fræðing­ur, ég er bara maður í stíg­vél­um og geng um og reyni að hjálpa. Veit ekk­ert um hvað er skemmt og hvað er hægt að þurrka og redda.“

Bubba­safnið ónýtt

Hann nefn­ir þó vínil­plöt­urn­ar sín­ar, sem hafi farið illa út úr lek­an­um. „Þær virðast vera látn­ar. Þó að það væri búið að gefa út að vínil­plöt­ur væru ennþá á lífi, þá eru þær orðnar blaut­ar og ógeðsleg­ar. Þegar ég horfi á þær eru þær all­ar ónýt­ar. Ég sé til dæm­is Bubba­safnið mitt hérna. Það er allt áritað frá vini mín­um. Ég á eft­ir að gráta það lengi,“ seg­ir Davíð en fjöl­skyld­an dvel­ur núna á hót­el Öld­unni.

Davíð hjá plötusafninu sínu.
Davíð hjá plötusafn­inu sínu. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Hann hef­ur verið önn­um kaf­inn við að sinna björg­un­ar­sveit­ar- og slökkviliðsstörf­um und­an­farið vegna aur­skriðanna. Störf­in hafa í dag snú­ist um að ferja fólk upp í hús, dæl­ing­ar og að aðstoða Rauða kross­inn við að út­vega mat­væli. „Þetta hús hef­ur ekki fengið sér­stak­an fókus eins og er.“

Stjórn­völd girði sig í brók

Spurður út í til­finn­ing­una vegna lek­ans í hús­inu sínu seg­ist hann ekki vera kom­inn svo langt að hugsa út í það. „Ég er nú frek­ar ein­fald­ur að eðlis­fari. Ég held að það fljóti bara yfir eins og allt annað hjá mér.“

Varðandi bæj­ar­búa al­mennt seg­ir hann stöðuna vera þeim þung­bæra. Mest­megn­is ótt­ist þeir áfram­haldið, hvað ger­ist næst. „Núna þurfa stjórn­völd að girða sig í brók og klára þess­ar of­an­flóðavarn­ir sem er búið að tala um síðan lengstu menn muna. Það eru hættu­svæði hérna og búið að vita af því lengi,“ seg­ir Davíð að lok­um.

mbl.is