Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar, með aðstoð áhafnarinnar á varðskipinu Tý, eyddi sprengjuhleðslu úr þýsku tundurskeyti frá seinni heimsstyrjöld úti fyrir Sandgerði laust fyrir klukkan tvö í dag.
Tundurskeytið kom kom í veiðarfæri togara sem var að veiðum úti fyrir Garðskaga síðdegis í gær en rúmlega 300 kíló af virku dýnamíti voru í hleðslunni, að því er Gæslan greinir frá.
„Áhöfn togarans brást hárrétt við og gerði Landhelgisgæslunni viðvart sem sendi sprengjusérfræðinga um borð í skipið í Sandgerðishöfn í gær. Tundurskeytið var híft frá togaranum og dregið hálfan annan kílómetra frá höfninni þar sem því var sökkt á 10 metra dýpi,“ segir í tilkynningu Landhelgisgæslunnar.
Þá segir, að séraðgerðasveitin og áhöfnin á Tý hafi í dag unnið að undirbúningi eyðingarinnar sem var ansi kraftmikil. Tilkomumikill strókur stóð 30 metra upp í loft eftir að skeytið var sprengt.