„Algjörlega ólýsanlegar aðstæður“

Fjöldahjálpastöðin í grunnskólanum á Egilsstöðum að kvöldi 18. desember.
Fjöldahjálpastöðin í grunnskólanum á Egilsstöðum að kvöldi 18. desember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorkell Helgason, Lukka Gissurardóttir og Ágústa Sveinsdóttir hafa búið á Seyðisfirði nánast alla sína ævi. Þau segja ástandið óraunverulegt og að mestu muni að ekki hafi orðið manntjón í dag.

Þau ræddu við blaðamann mbl.is fyrir utan fjöldahjálparstöðina á Egilsstöðum.

Ekkert þeirra bjó á svæði sem var í hættu en búið er að rýma allan Seyðisfjörð og þar með þurftu þau að yfirgefa heimili sín.

„Við fengum ekki leyfi til að fara heim og taka dótið okkar,“ segir Lukka. 

„Það er litið á þetta sem eitt allsherjar hamfarasvæði, þar er ekkert farið inn á það,“ bætir Þorkell við.

Þau segja ástandið ömurlegt. Ekkert sé að marka tilfinningar fólks núna ef áfallið á eftir að koma yfir það.

Séð inn í fjöldahjálparstöð í grunnskólanum á Egilsstöðum að kvöldi …
Séð inn í fjöldahjálparstöð í grunnskólanum á Egilsstöðum að kvöldi 18. desember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er fyrir öllu“

Þau segjast kannast við viðlíka aðstæður en ekki sé hægt að gera sér grein fyrir hve stór aurskriðan er né hvað sé farið.

„Eina sem ég veit er að það var mannbjörg og enginn lést og það er fyrir öllu,“ segir Þorkell.

Þau taka öll undir það fólk sé í áfalli, hluti byggðarinnar hafi hreinlega þurrkast út.

Finna til með þeim sem misst hafa heimili sín

„Það eru allir í losti, raunveruleikatengingin er ekki almennilega í sambandi hjá fólki. Maður er lifandi, og er að komast í öruggt skjól, og svo veit maður ekkert hvað bíður manns,“ segir Lukka.

Helgi segir að fólk hafi verið síðustu daga sem eitt. Að þrátt fyrir gríðarlegt álag á öllum þá hafi þetta sýnt það að þegar á reyni þá stendur fólk saman.

„Þetta eru náttúrulega algjörlega ólýsanlegar aðstæður, maður finnur bara svo mikið til með þeim sem hafa misst heimili sín, þetta er svo mikið tjón fyrir þá,“ segir Þorkell.

mbl.is