„Algjörlega ólýsanlegar aðstæður“

Fjöldahjálpastöðin í grunnskólanum á Egilsstöðum að kvöldi 18. desember.
Fjöldahjálpastöðin í grunnskólanum á Egilsstöðum að kvöldi 18. desember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorkell Helga­son, Lukka Giss­ur­ar­dótt­ir og Ágústa Sveins­dótt­ir hafa búið á Seyðis­firði nán­ast alla sína ævi. Þau segja ástandið óraun­veru­legt og að mestu muni að ekki hafi orðið mann­tjón í dag.

Þau ræddu við blaðamann mbl.is fyr­ir utan fjölda­hjálp­ar­stöðina á Eg­ils­stöðum.

Ekk­ert þeirra bjó á svæði sem var í hættu en búið er að rýma all­an Seyðis­fjörð og þar með þurftu þau að yf­ir­gefa heim­ili sín.

„Við feng­um ekki leyfi til að fara heim og taka dótið okk­ar,“ seg­ir Lukka. 

„Það er litið á þetta sem eitt alls­herj­ar ham­fara­svæði, þar er ekk­ert farið inn á það,“ bæt­ir Þorkell við.

Þau segja ástandið öm­ur­legt. Ekk­ert sé að marka til­finn­ing­ar fólks núna ef áfallið á eft­ir að koma yfir það.

Séð inn í fjöldahjálparstöð í grunnskólanum á Egilsstöðum að kvöldi …
Séð inn í fjölda­hjálp­ar­stöð í grunn­skól­an­um á Eg­ils­stöðum að kvöldi 18. des­em­ber. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

„Það er fyr­ir öllu“

Þau segj­ast kann­ast við viðlíka aðstæður en ekki sé hægt að gera sér grein fyr­ir hve stór aur­skriðan er né hvað sé farið.

„Eina sem ég veit er að það var mann­björg og eng­inn lést og það er fyr­ir öllu,“ seg­ir Þorkell.

Þau taka öll und­ir það fólk sé í áfalli, hluti byggðar­inn­ar hafi hrein­lega þurrk­ast út.

Finna til með þeim sem misst hafa heim­ili sín

„Það eru all­ir í losti, raun­veru­leika­teng­ing­in er ekki al­menni­lega í sam­bandi hjá fólki. Maður er lif­andi, og er að kom­ast í ör­uggt skjól, og svo veit maður ekk­ert hvað bíður manns,“ seg­ir Lukka.

Helgi seg­ir að fólk hafi verið síðustu daga sem eitt. Að þrátt fyr­ir gríðarlegt álag á öll­um þá hafi þetta sýnt það að þegar á reyni þá stend­ur fólk sam­an.

„Þetta eru nátt­úru­lega al­gjör­lega ólýs­an­leg­ar aðstæður, maður finn­ur bara svo mikið til með þeim sem hafa misst heim­ili sín, þetta er svo mikið tjón fyr­ir þá,“ seg­ir Þorkell.

mbl.is